Verk að vinna

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar eftir rúmar fjórar vikur. Á þessu kjörtímabili hefur Samfylkingin á Akureyri staðið vaktina í meirihluta eftir góðan árangur í kosningum fyrir fjórum árum síðan. Það starf hefur gengið vel og flest þau mál sem lagt var upp með í málefnasamningi náð fram að ganga. Frá hruni Íslenska fjármálakerfisins höfum við lagt áherslu á að bregðast við því áfalli og tryggja rekstur og þjónustu bæjarins til framtíðar. Nýbirtur ársreikningur bæjarins sýnir okkur svart á hvítu að þar erum við á góðri leið. Það er ennþá verk að vinna á þessu sviði en meginverkefni næstu ára er endurreisn atvinnulífs, sókn sem miðar að því að fjölga atvinnutækifærum, auka tekjurnar í samfélaginu og skapa þar með forsendur fyrir ennþá betri þjónustu Akureyrarbæjar við íbúa. Við þurfum vinnu fyrir alla til þess að tryggja velferð allra.

Þess vegna horfir Samfylkingin mjög til atvinnumála í stefnumótun sinni að þessu sinni. Næg atvinna skapar íbúum og bæjarsjóði tekjur og þar með grundvöll þeirrar þjónustu sem við eigum og viljum veita. Þó svo að Akureyrarbær eigi ekki að gerast beinn þátttakandi í rekstri fyrirtækja í bænum getur hann engu að síður gegnt mikilvægu hlutverki við að snúa vörn í sókn. Að því ætlum við að vinna.

Í fyrsta lagi leggjum við áherslu á samvinnu við fyrirtæki bæjarins sem miðar að því að verja og efla  þeirra starfsemi. Við ætlum að styrkja starfsemi Akureyrarstofu og auka þar áherslu á samskipti og samstarf við sjávarútvegs- og iðnfyrirtæki. Jafnframt teljum við að sóknarfæri séu hvað varðar frekari uppbyggingu tækniiðnaðar á Akureyri og munum beita okkur fyrir samstarfi við leiðandi fyrirtæki, Háskólann og framhaldsskóla bæjarins um það verkefni.

Í öðru lagi þarf að  halda áfram uppbyggingu aðstöðu sem gerir bæinn eftirsóknarverðan til búsetu og sem viðkomustað ferðamanna. Akureyrarbær er nú þegar spennandi viðkomustaður ferðamanna, m.a. vegna öflugs menningarlífs og góðrar íþróttaaðstöðu. Við þurfum að styrkja þessa þætti og þar er næsta verkefnið áframhaldandi uppbygging skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. Jafnframt þarf að huga að annarri aðstöðu fyrir ferðamenn sem hingað sækja og tryggja að til séu lóðir, m.a. til að byggja upp hótel.

Í þriðja lagi leggjum við  áherslu á markvissa leit að nýjum atvinnutækifærum og aðstoð við þau fyrirtæki sem hingað vilja koma með rekstur sinn. Við munum áfram vinna að undirbúningi koltrefjaverksmiðju og greiða götu þeirra sem ætla að taka þátt í því verkefni sem og öðrum sambærilegum.

Í fjórða lagi munum við krefja stjórnvöld um réttlátar aðgerðir í þágu atvinnulífsins á svæðinu, t.d. í samgöngumálum. Við munum halda áfram baráttu okkar fyrir því að Akureyrarflugvöllur verði byggður upp sem millilandaflugvöllur og hann markaðssettur sem slíkur. Með sama hætti munum við beita okkur fyrir því að ráðist verði í þær framkvæmdir sem stytta leiðir og draga úr flutningskosnaði fyrirtækja og halda áfram á lofti kröfunni um jöfnun flutningskostnaðar.

Síðast en ekki síst munum við leggja áherslu á að ráðist verði í atvinnuskapandi framkvæmdir af hálfu ríkis og bæjar með það að markmiði að slá á það atvinnuleysi sem nú er um leið og tækifærið er nýtt til að byggja hér upp nauðsynlega aðstöðu af ýmsu tagi til framtíðar. Sérstakt viðhaldsátak af hálfu bæjarins er á dagskrá af hálfu Samfylkingarinnar.

Akureyri þarf á því að halda að í bæjarstjórn setjist fólk sem getur hnýtt saman þekkingu og reynslu af málefnum bæjarins og atvinnulífsins, fólk sem gerir sér grein fyrir því hvar skóinn kreppir og með hvaða hæti er hægt að takast á við þau vandamál sem við er að glíma. En það er ekki síður mikilvægt að í bæjarstjórn setjist fólk með skýra framtíðarsýn og sterka sannfæringu fyrir því hvar framtíðarmöguleikar Akureyrar liggja. Við óskum eftir umboði Akureyringa til þess að starfa í þeirra þágu á komandi kjörtímabili um leið og við hvetjum ykkur til þess að koma til starfa með okkur í þágu bæjarins okkar.

Hermann Jón Tómasson

Bæjarstjóri og oddviti Samfylkingarinnnar á Akureyri

Be the first to comment on "Verk að vinna"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*