Betri tíð

Fáein orð  um ársreikning Akureyrarbæjar 2009 

Nú er sumarið formlega gengið í garð þótt kalt sé enn á Íslandi. Ýmislegt bendir til þess að bráðum komi betri tíð með blóm í haga og nýr ársreikningur Akureyrarbæjar, fyrir árið 2009, gefur sannarlega góð fyrirheit. Þar hefur orðið mikill viðsnúningur sem ber að þakka: Í stað tæplega 900 milljóna króna halla sem virtist blasa við í kjölfar bankahrunsins, er tekjuafgangur af rekstri Akureyrarbæjar og fyrirtækja í eigu hans rétt um 1.165 milljónir króna. Það munar um minna þegar árar eins og nú gerir. 

Niðurstaðan er langt umfram væntingar og er einkum fernt sem skýrir hana: Tekjur eru meiri en gert var ráð fyrir, rekstrarútgjöld eru minni, lífeyrisskuldbinding vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar lækkar og hagnaður varð af sölu Norðurorku á hlut sínum í Þeistareykjum. Salan á Þeistareykjum ehf. skýrir rúmlega helming þess árangurs sem náðist á árinu, þannig að þótt hún hefði ekki komið til, hefði engu að síður orðið afgangur af rekstrinum. 

Fjárhagsáætlun ársins 2009 var gerð á miklum óvissutímum skömmu eftir fall íslensku bankanna. Ljóst var að rekstrarforsendur höfðu gjörbreyst til hins verra sem kallaði á aðhaldsaðgerðir af hálfu bæjaryfirvalda. Við þessari stöðu var brugðist með aðhaldi á öllum sviðum en á sama tíma var lögð áhersla á að verja eins og kostur var þá starfsemi sem haldið er úti af hálfu sveitarfélagsins.  

Ég tel að þessar áherslur, ásamt pólitískri samstöðu um verkefnið, hafi leitt til þess að góð sátt skapaðist um aðhaldsaðgerðir bæjaryfirvalda. Stjórnendur og starfsmenn bæjarins eiga mikið lof skilið fyrir skilning og þátttöku í framkvæmd þeirra. Sömu sögu er að segja um alla þá aðila sem unnið hafa að samfélagsverkefnum af ýmsu tagi með bæjarfélaginu. Þar lögðust allir á eitt og árangur þessa starfs birtist okkur nú svart á hvítu í lægri rekstrarkostnaði Akureyrarbæjar. 

Akureyringar báru gæfu til að standa saman þegar þær fjárhagslegu náttúruhamfarir sem bankahrunið var dundu yfir þjóðina. Sú samstaða, sem og gott starf stjórnenda og starfsmanna bæjarins, hefur skilað okkur traustari fjárhagslegri undirstöðum en ella hefði orðið. Fyrir það vil ég þakka og á þeim forsendum vil ég starfa áfram í þágu bæjarbúa. 

Gleðilegt sumar!

Be the first to comment on "Betri tíð"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*