Skref í átta að betra samfélagi.

Stjórnvöld á Akureyri eru á  mannréttindavaktinni og hafa tekið þar forystu. Glæsilegt dæmi um það er að „Aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum 2010- 2011“ var samþykkt í bæjarstjórn undir lok síðasta mánaðar.  Þar með er Akureyri fyrst allra sveitafélaga til að samþykkja og virkja áætlun sem þessa. Það er von mín sem bæjarfulltrúa, en þó ekki síður móður og uppalanda, að fleiri sveitafélög fylgi í kjölfarið.

Áætlun hefur verið í smíðum um nokkurn tíma. Ákveðið var að einskorða hana við viðurkenndar skilgreiningar á kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum, en síðar verður mögulegt að víkka sjónarhornið og taka tillit til fleiri þátta. Vinnuhópur á vegum félagsmálaráðs bæjarins vann að áætluninni og byggir hún m.a. á aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegu ofbeldi, lögum um jafna stöðu og rétt kvenna og karla, barnaverndarlögum og ýmsum sáttmálum Sameinuðu þjóðanna.

Slys og ofbeldi eru þriðja algengasta dánarorsök í Evrópu. Af því leiðir að það  afar mikilvægt að hvert samfélag móti vinnureglur og verklag sem stuðlar að því að draga úr ofbeldi og slysum.   Fræðsla og kynning er máttugasta tækið í þeim efnum. Það hefur enda sýnt sig, að því meiri og opnari sem umræðan er um málefni sem þessi, þeim mun meiri líkur eru á að þolendur séu tilbúnari til að opna á  umræðu um vandann og  að leita sér hjálpar í kjölfarið.  Og vandinn er ærinn. Á undangegnum árum hefur tilkynningum til barnaverndaryfirvalda fjölgað til muna, hugsanlega vegna fleiri brota, en einnig vegna vitundarvakningar alls almennings sem hikar nú  síður við að tilkynna um brot gegn börnum í sínu nærumhverfi.

Félagsmálaráði er gert að  fylgja áætluninni eftir, en hún gildir næstu tvö árin og verður þá tekin til endurskoðunar í ljósi reynslunnar. Leiðarljósið er að fræða bæði börn og fullorðna um orsakir og afleiðingar ofbeldis, en einnig það starfsfólk bæjarins sem helst starfar með börnum og verður að þekkja og geta skilgreint vandann hverju sinni. Í þessu efni er brýnt að upplýsa alla um þau úrræði sem eru fyrir hendi og gera þau sýnilegri og aðgengilegri fyrir þá sem á þurfa að halda. Einnig er mikilvægt að stilla saman strengi almannaþjónustunnar svo hver hönd vinni þar sem best með annarri.

Í aðgerðaráætluninni eru markmið og útfærslur þessar:

  1. Stuðla að markvissum forvörnum sem snúa að börnum og fullorðnum til að koma í veg fyrir ofbeldi á heimilum og kynferðislegt ofbeldi.
  2. Tryggja að nærþjónusta við þolendur sé skilvik og ljóst hvert skuli leita aðstoðar.
  3. Styrkja starfsfólk stofnana í því að þekkja einkenni ofbeldis, greina þau og bregðast rétt við.
  4. Efla úrræði fyrir þolendur ofbeldis, gera þau sýnileg og aðgengileg. Tryggja samstarf innan sveitarfélagsins.
  5. Tryggja að þjónustuaðilar innan sveitarfélasins hafi gott samstarf sín á milli.
  6. Styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur.

Að mínu viti er þessi merka aðgerðaáætlun afar metnaðarfull. Mest er um vert að hér er hart og skipulega sótt að meininu. Hér sameinast þjónustuaðilar innan bæjarkerfisins og fagaðilar utan þess í mikilsverðu  þjóðþrifamáli sem tímabært er að takast á við.  Ég bind miklar vonir við að með þessari áætlun verði öll þjónusta við þolendur ofbeldis í okkar nærsamfélagi mun skilvirkari og árangursríkari en verið hefur til þessa. Í mínum huga er þetta er afar ánægjulegur áfangi og stórt skref í átt að betra samfélagi.

Sigrún Stefánsdóttir

formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar

Be the first to comment on "Skref í átta að betra samfélagi."

Leave a comment

Your email address will not be published.


*