Velferðarmál í brennidepli

Eitt mikilvægasta verkefni Akureyrarbæjar er að tryggja velferð íbúanna. Velferðarmálin heyra undir félagsmálaráð,  en undir ráðinu starfa fjórar deildir sem sinna mismunandi verkefnum, fjölskyldudeild, búsetudeild, heilsugæslan og Öldrunarheimili Akureyrarbæjar. Akureyrarbær er í þeirri einstöku stöðu meðal sveitarfélaga landsins að á hendi sveitarfélagsins eru verkefni sem að öllu jöfnu er sinnt af ríkinu, málefni fatlaðra, málefni aldraðra og almenn heilsugæsla, og undir stjórn félagsmálaráðs Akureyrar hefur áhersla verið lögð á samvinnu þessara deilda með hagsmuni íbúanna sem þjónustuna þyggja að leiðarljósi. Vel hefur tekist að samþætta þessa þjónustu, svo vel að horft er til Akureyrar sem fyrirmyndarsveitarfélags um margt á þessu sviði. Þannig fékk búsetudeildin hvatningarverðlaun Öryrkjabandlags Íslands árið 2008 fyrir frumkvöðlastarf í útfærslu á notendastýrðri þjónustu og árið 2009 útnefndi Geðhjálp Akureyrarbæ fyrirmyndarsveitarfélag í þjónustu við geðfatlaða. Við getum verið stolt af þessum góða árangri sem byggir á þeim frábæra hópi starfsmanna sem sinnir þessari þjónustu á vegum bæjarins.

Það er mikilvægt að bæjaryfirvöld séu vel vakandi fyrir þörfum íbúanna á þessu sviði og bregðist við með nýjum úrræðum eða breyttri þjónustu í samræmi við breyttar þarfir. Það hefur sannarlega verið gert á undanförnum árum. Því til staðfestingar vil ég nefna nokkur dæmi.

Ráðgjöfin heim er ein tegund heimaþjónustu og ein þeirra nýjunga sem við getum státað af hér á Akureyri. Þjónustan, sem hófst um mitt ár 2006, er ætluð geðfötluðum. Hún er sveigjanleg og einstaklingsbundin og notendur eru aðstoðaðir með hvaðeina er lýtur að daglegu lífi. Þessi þjónusta hefur vakið mikla athygli og hefur verið kynnt víða. Reykjavíkurborg hefur nýtt reynslu okkar til að þróa svipaða þjónustu hjá sér. Þjónusta sem þessi gæti hæglega nýst fleiri hópum í samfélaginu, t.d. öldruðum.

Árið 2007 var Fjölsmiðjan stofnuð. Hún er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á Eyjafjarðarsvæðinu. Fjölsmiðjan er  samstarfsverkefni Rauði kross Íslands, Akureyrarbæjar, Vinnumálastofnunar og Menntamálaráðuneytis.  Fjölsmiðjan er fyrir ungt fólk sem á í erfiðleikum með að fóta sig í vinnu eða námi.  Í Fjölsmiðjunni er rekin verslun sem selur notuð húsgögn og búsáhöld. Starfrækt er bílaþvottastöð, eldhús og fleiri verkefni. Starfsemin hefur gengið vel og er að festa sig í sessi.

Á árinu 2009 var hleypt af stokkunum nýju sérhæfðu meðferðarúrræði fyrir unglinga með hegðunarvanda og fjölskyldur þeirra. Barnaverndarstofa leggur fram fé til reksturs til tveggja ára, en bærinn sá um ráðningar starfsfólk og útvegaði því starfsaðstöðu. Barnaverndarnefnd vísar unglingum og fjölskyldum þeirra í þetta úrræði þegar það á við.  Starfsemin fór í gang síðastliðið haust og var verkefnið að fullu komið í gang um áramót. Til að byrja með er verkefnið tilraunaverkefni til tveggja ára og gangið það vel munum við leggja áherslu á að áframhald verið á þessari þjónustu.

Stöðugt hefur verið unnið að því að bæta aðstæður og aðbúnað íbúa á öldrunarheimilum Akureyrar. Á undanförnum árum hefur verið gert átak í endurbótum á eldri deildum Hlíðar til að mæta nútímakröfum. Herbergjum var fækkað og útbúnar setustofur og borðstofur með eldhúskrók á öllum deildum. Keypt voru ný húsgögn og deildirnar gerðar eins heimilislegar og hægt er. Dagþjónustan í Hlíð flutti á haustmánuðum 2008 í nýuppgert og fallegt húsnæði í elstu byggingunni og þar er nú aðstaða til þess að fjölga rýmum fáist leyfi til þess frá ríkinu. Mikil ánægja er með nýju aðstöðuna sem býður upp á mikla möguleika í þróun þjónustunnar. Um síðustu áramót lauk svo endurbótum í Víðihlíð og er þar með lokið endurbótum á öllum deildunum í Hlíð í góðu samstarfi við Fasteignir Akureyrar.

Það er verkefni bæjaryfirvalda að laga þjónustu eins og kostur er að þörfum íbúa bæjarins á hverjum tíma. Eins og þessi dæmi sýna leita starfsmenn og stjórnendur velferðarþjónustunnar sífellt leiða til þess. Það hefur verið ánægjulegt að starfa sem formaður félagsmálaráðs fyrir íbúa Akureyrar og ég lít sátt yfir verk þess kjörtímabils sem nú er senn á enda. Starfið hefur verið mér mikill og góður skóli og ég er tilbúin til þess að nýta þá reynslu til starfa að þessum málaflokki næstu fjögur árin. Til að svo megi verða þarf Samfylkingin á stuðningi þínum að halda í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Sigrún Stefánsdóttir

formaður félagsmálaráðs og frambjóðandi Samfylkingarinnar á Akureyri.

Be the first to comment on "Velferðarmál í brennidepli"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*