Miðbær Akureyrar

Skipulagsmál eru mikilvægur þáttur í mótun samfélagsins. Í skipulagi endurspeglast hugmyndir hvers tíma um æskilega landnotkun og samfélagsþróun. Forsendur skipulags eiga fyrst og fremst að ráðast af viðhorfum almennings og kjörinna fulltrúa þeirra.

Samfylkingin vill skapa líflegan miðbæ sem er í senn vettvangur blómlegrar verslunar og skemmtilegs mannlífs en einnig eftirsóknarverður til búsetu. Miðbæ þar sem gangandi vegfarendum er gert hærra undir höfði en bílum. Uppbygging miðbæjarins hefur til skemmri tíma jákvæð áhrif á atvinnulífið, þar sem skóinn kreppir nú helst. Þá stuðlar hún til lengri tíma að eflingu ferðaþjónustu og eykur rekstrarhæfi Hofs.

Sagan

Árið 2005 var boðið til opinnar alþjóðlegrar samkeppni um skipulag á miðbæ Akureyrar.  Keppnislýsing var byggð á niðurstöðum úr vel heppnuðu íbúaþingi sama ár.  Alls bárust 60 tillögur í keppnina víðsvegar að úr heiminum.  Hlutskörpust reyndist tillaga GM Arrchitects frá Skotlandi. Unnið hefur verið eftir tillögunni síðustu 5 ár og hefur hún tekið nokkrum breytingum á þeim tíma, ekki síst vegna ábendinga frá ýmsum aðilum sem kallaðir hafa verið til álitsgjafar

Skipulagstillagan  sem nýlega var auglýst  er rökrétt framhald af bæjarskipulaginu frá 1927. Gert er ráð fyrir nokkuð þéttri byggð 3-5 hæða húsa og byggir á hefðbundnu Evrópsku bæjarskipulagi þar sem grunnstefið eru hús, götur og opin rými. Í tillögunni er gert ráð fyrir síki sem grafið er frá Torfunefi vestur að Skipagötu (hér eftir nefnt Eyrarsund). Við þetta verður til rými sem liggur vel við sól, nýtur skjóls í norðanátt, tengir og opnar sjónlínu milli Skátagils, miðbæjar og pollsins.

Í sátt við íbúa

Ljóst er að ýmsir þættir tillögunnar eru mjög umdeildir. Fjölmargar athugasemdir bárust bæjaryfirvöldum þegar tillagan var auglýst. Við þeim þarf að bregðast. Samfylkingin vill að haldið verði áfram  vinnu við miðbæjarskipulagið þannig að sem breiðust sátt náist um umdeilda hluta hennar, án þess að heildaryfirbragð og ávinningur hennar glatist. Hér fara á eftir nokkur atriði sem gagnrýnd hafa verið og Samfylkingin telur að taka þurfi tillit til:

  1. Útfærsla Eyrarsunds verði tekin til  endurskoðunar og  unnin í sátt  við  íbúa bæjarins. Lögð verði áhersla á að nýta vel þá möguleika sem rýmið gefur, hvort heldur sem um verður að ræða torg, vatnasvæði eða grænan reit.
  2. Farið verði yfir skilmála um hæðir húsa og þeim breytt þar sem þurfa þykir, til að koma í veg fyrir skuggavarp inn á Eyrarsund og e.t.v. fleiri rými.
  3. Bílastæðamál verði  betur útfærð. Bílastæðahús verði byggt á skipulagssvæðinu eða í tengslum við það í stað bílastæða í kjallara, undir sjávarmáli. Lausn verði fundin á þessu máli áður en reitum sunnan Eyrarsunds verði úthlutað.
  4. Glerárgötureitum syðri verði skipt upp í smærri einingar þannig að þeir henti betur fyrir  smærri fjárfesta og verktaka. Með því eykst jafnframt fjölbreytileiki húsa á svæðinu.
  5. Við forgangsröðun framkvæmda verði  lögð áhersla á að ganga frá hafnarsvæðinu samhliða frágangi Eyrarsunds. Við það verði miðað að gatnagerðargjöld standi að mestu undir framkvæmdum  og kostnaður verði ekki íþyngjandi fyrir íbúa bæjarins.

Mál allra Akureyringa

Skipulag miðbæjarins á Akureyri er málefni sem varðar alla íbúa bæjarins. Samfylkingin leggur áherslu á að vinna áfram að mótun skipulagsins þannig að sátt verði um það hjá breiðum hópi íbúa. Þá sátt teljum við að hægt sé að skapa með ofangreindum áherslum og munum beita okkur fyrir því að skipulagstillögunum verði breytt í þessa veru áður en þær verða kynntar að nýju fyrir bæjarbúum.

Be the first to comment on "Miðbær Akureyrar"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*