Fyrir hvað stendur Samfylkingin?

Öll finnum við fyrir afleiðingum fjármálahrunsins; atvinnuleysi er mikið og sífellt fleiri glíma við fjárhagserfiðleika.  Reynsla annarra þjóða sem upplifað hafa djúpa kreppu sýnir okkur að það mun mæða gríðarlega á félags- og heilbrigðisþjónustu á næstu misserum.  Ásókn í hana mun aukast og mál verða vafalítið erfiðari en við höfum upplifað í langan tíma. 

Megin viðfangsefni næstu ára verður að greina á milli þarfa og langana.  Í hvað verður skattekjum eytt og hvar verður skorið niður.  Úrslit bæjarstjórnarkosninganna ráða að sjálfsögðu miklu þar um.  Kjósendur eiga því rétt á að þekkja þau grunngildi sem framboðin byggja á.

Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur og byggir sína stefnu á jafnrétti, frelsi og samábyrgð:

  • Öllum séu tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða.
  • Frelsi sé óháð kyni, kynþætti, trúar- og stjórnmálaskoðunum, félagslegum uppruna eða öðrum mun manna.  Öllu frelsi fylgir hins vegar ábyrgð gagnvart frelsi annarra.
  • Allir þegnar samfélagsins eiga rétt á heilbrigðisþjónustu, menntun og annarri samfélagslegri þjónustu óháð efnahag.  Öllum þarf að tryggja mannsæmandi lífsviðurværi.
  • Allir eiga rétt á  atvinnu.
  • Samábyrgð er hugsjón um bræðralag, vilji til þess að axla ábyrgð á högum annarra.  Í því felst að skipta þannig veraldlegum gæðum að öllum sé tryggt öryggi og frelsi til farsæls lífs.  Öll erum við háð hvert öðru og samfélaginu eins og samfélagið er háð hverju okkar.

Fátækt, þekkingarleysi og félagsleg einangrun er okkar stærsta ógn á hverjum tíma.  Samfylkingin á Akureyri heitir því að berjast fyrir réttlátu samfélagi sem byggir á jafnaðarmennsku.

Logi Már Einarsson

Be the first to comment on "Fyrir hvað stendur Samfylkingin?"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*