Ríkisstjórnin á leik

Ferðaþjónusta hefur blómstrað á Akureyri síðustu misserin. Akureyrarbær hefur komið myndarlega að markaðsmálum ferðaþjónustunnar með þeim árangri að bærinn er nú vinsælasti áfangastaður íslenskra ferðamanna jafnt sumar sem vetur. Möguleikar til frekari uppbyggingar á þessu sviði eru sannarlega til staðar. Nýtt menningar- og ráðstefnuhús, skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, Tröllaskaginn með alla sína möguleika til útivistar og stórbrotin náttúran í Þingeyjarsýslum. Þessi sérkenni og fjölmörg fleiri skapa möguleika til frekari sóknar. Rekstraraðilar í ferðaþjónustu gera sér góða grein fyrir þessu sem má m.a. merkja af þeim áhuga sem nú er á að fjölga hótel- og gistirýmum á Akureyri. Ef rétt er á spilum haldið er hægt að fjölga til muna erlendum ferðamönnum á svæðinu, sérstaklega þeim sem hingað sækja utan hefðbundins ferðamannatíma, og auka þar með gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Það yrði kærkomin búbót fyrir þjóðarbúið. Forsenda þessa árangurs er beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll.

Undanfarnar vikur hafa óblíð náttúruöflin sannarlega minnt á sig á Íslandi. Samgöngur röskuðust um víða veröld og hér á landi gerðist það hvað eftir annað að ekki var hægt að fljúga um Keflavíkurflugvöll. Akureyrarflugvöllur gengdi lykilhlutverki í að leysa þau vandamál sem upp komu og þörfin fyrir góða aðstöðu fyrir flug til og frá landinu utan suðvesturhornsins kom berlega í ljós. En við vorum jafnframt minnt á að aðstaðan hér á Akureyri er enganvegin fullnægjandi. Ef völlurinn á að getað þjónað hlutverki sem millilandaflugvöllur verður að byggja upp flughlað og stækka flugstöðina. Þetta er eitt þeirra verkefna sem legið hefur á borðum stjórnvalda og beðið afgreiðslu undanfarna mánuði. Tillögur um framkvæmdina eru tilbúnar og þess vegna væri hægt að ráðast í hana með skömmum fyrirvara. Það væri svo sannarlega skynsamleg aðgerð sem tryggði flugöryggi landsins, opnaði nýja möguleika til eflingar ferðaþjónustu og kæmi sem innspíting í erfitt atvinnuástand á Akureyri á hárréttum tíma.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Rökin eru augljós og hægt er að ráðast í framkvæmdir með stuttum fyrirvara. En við bíðum eftir stjórnvöldum. Þaðan þurfa að koma skýr svör strax. Það gengur ekki að mikilvæg verkefni sem eiga augljósan rétt á sér séu látin bíða von úr viti. Ég skora á ríkisstjórnina að reka af sér slyðruorðið og gefa grænt ljós á framkvæmdir á Akureyrarflugvelli nú þegar. Það eru skilaboð um ríkið ætli raunverulega að leggja atvinnuuppbyggingu lið, það eru skilaboð um það að ríkisstjórnin standa með Íslandi í uppbyggingu atvinnu- og efnahagslífs.

Hermann Jón Tómasson

Bæjarstjóri á Akureyri

Be the first to comment on "Ríkisstjórnin á leik"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*