Jón Helgason látinn

Jón Helgason, fyrrverandi formaður Verkalýðsfélagsins Einingar og síðar framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Sameiningar á Akureyri, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri hinn 20. janúar.  Um leið og við kveðjum kæran vin þá þökkum við honum samstarfið á liðnum árum og hans framlag í þágu jafnaðarmanna.

Jón fæddist í Unaðsdal á Snæfjallaströnd 18. október 1927, sonur hjónanna Guðrúnar Ólafsdóttur og Helga Guðmundssonar útvegsbónda. Hann var áttundi í röðinni af sextán systkinum, sjö eru á lífi í dag. Jón gekk í barnaskóla, var einn vetur í framhaldsskóla, lauk vélstjóranámskeiði sem veitti minna vélstjórapróf og lauk stýrimannanámskeiði sem veitti minna skipstjórnarpróf. Jón byrjaði ungur til sjós og gegndi sjómennsku til margra ára á bátum og togurum.

Jón sat m.a. í miðstjórn ASÍ og Verkamannasambandsins um tólf ára skeið, sat í stjórn Sjómannafélags Akureyrar, í stjórn Útgerðarfélags Akureyringa hf., í stjórn Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, í stjórn Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar auk fleiri stjórna.

Jón starfaði mikið í stjórnmálum fyrir Alþýðuflokkinn og var varaþingmaður um tíma.

Eftirlifandi eiginkona Jóns er Snjólaug Þorsteinsdóttir frá Hrísey og eiga þau fjögur börn og fjölda barnabarna og barnabarnabarna.

Be the first to comment on "Jón Helgason látinn"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*