Fráveituframkvæmdir strax!!!

Á fundi bæjarráðs nú nýlega var lagt fram bréf frá heilbrigðisnefnd Norðurlands Eystra til bæjarstjórans á Akureyri. Þar skorar nefndin á bæjaryfirvöld að láta úrbætur í fráveitumálum Akureyringa hafa forgang á þessu ári. Mælingar sem gerðar voru þann 12. desember síðastliðinn sýna verulega og samfellda skólpmengun á svæðinu frá Þórsnesi að Leiruvegi, mengun sem er langt umfram öll viðmiðunarmörk. Við sjávarsíðuna, á því svæði þar sem mengunin mældist, er öflug matvælavinnsla, fóðurgerð, ferðaþjónusta og ýmis önnur atvinnustarfsemi. Þetta er jafnframt útivistarsvæði fjölmargra Akureyringa, t.d. siglingafólks og sjósundsfólks, og þarna hafa tryllukarlar og kerlingar aðstöðu fyrir báta sína. Niðurstöður heilbrigðiseftirlitsins eru sláandi og sýna nauðsyn þess að ráðast svo fljótt sem kostur er í framkvæmdir við hreinsistöð og útrásarpípu við Sandgerðisbót.
Fjárhagsáætlun ársins 2012 var afgreidd í snemma í desember án þess að þar væri gert ráð fyrir fjármunum í þetta mikilvæga verkefni. Tillaga þess efnis sem undirritaður lagði fram var kolfelld, fékk einungis stuðning flutningsmanns. Undirtektir bæjarfulltrúa á þessum tíma ollu verulegum vonbrigðum þar sem kostnaður við að færa verkefnið til ársins 2012 er hverfandi þegar horft er til mikilvægis þess. Í ljósi nýrra upplýsinga frá heilbrigðiseftirlitinu virðist einboðið að bæjarfulltrúar vilji fá tækifæri til að fara aftur yfir málið. Þess vegna þarf að ræða það að nýju í bæjarstjórn og taka afstöðu til þess hvort breyta eigi fjárhagsáætlun svo hægt verði að hefjast handa við þessar framkvæmdir strax á þessu ári. Á síðasta bæjarstjórnarfundi lýsti formaður bæjarráðs því yfir að þessi möguleiki væri nú til skoðunar. Það er jákvætt og vonandi vísbending um stefnubreytingu meirihlutans. Enda væri annað ábyrgðarlaust í ljósi þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.

Be the first to comment on "Fráveituframkvæmdir strax!!!"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*