Óeðlilegt að Akureyrarbær leggi til fjármagn við prestþjónustu

Á síðasta fundi stjórnar Akureyrarstofu var tekin fyrir umsókn frá Sóknarnefnd Akureyrarkirkju um styrk til þess að vera með ferðmannaprest sem er með opna kirkjuna fram á kvöld og um helgar.  Ég skil vel ástæður þess að sóknarnefnd Akureyrarkirkju sendi þessa umsókn en þetta verkefni var um tíma tilraunaverkefni Akureyrarkirkju, Héraðssjóðs Eyfirðinga og Biskupsstofu.
Akureyrarkirkja stóð ein í þessu í fyrra en Biskupsstofa hefur dregið sig úr þessu samstarfi.  Ljóst er að leita þurfti eftir styrkjum víða til að standa straum af kostnaði við ráðningu ferðamannaprests.  Ég get ekki sannfæringu minnar vegna samþykkt þetta erindi þar sem Akureyrarbær sem sveitarfélag á ekki að styrkja trúfélög eða styrkja einhvers konar trúþjónustu.  Það ríkir trúfrelsi á Íslandi og þó að Akureyrarkirkja sé eitt frægasta kennimerki Akureyrar þá taldi ég ekki við hæfi að samþykkja styrktarbeiðni þeirra þar sem hún fól í sér ráðningu ferðamannaprests sem sinnir m.a. helgihaldi eða viðtölum við ferðamenn sé þess óskað.  Meirihluti stjórnarinnar samþykkti erindið en ég ásamt Hildi Friðriksdóttir (Vg) greiddum atkvæði gegn þessari umsókn með eftirfarandi bókun: „Þar sem við teljum afar óeðlilegt að Akureyrarbær leggi til fjármagn til að standa straum af kostnaði við prestþjónustu greiðum við atkvæði gegn þessari styrkveitingu“

Með jafnaðarmannakveðju

Jóhann Jónsson

Be the first to comment on "Óeðlilegt að Akureyrarbær leggi til fjármagn við prestþjónustu"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*