ÉG ER MJÖG MIKILL AKUREYRINGUR

magnusA

„Það tók mig ellefu ár að komast yfir þessi veikindi – og þau kostuðu mig meðal annars stóran hluta úr skólavistinni, enda fór það svo að ég tók landsprófið tveimur árum seinna en jafnaldrar mínir. Ég var meira á spítalanum en í skólanum. Og líklega hef ég misst af mestum glansa mótunarskeiðsins.“

Magnús Aðalbjörnsson er eitt af kennileitum Akureyrar, farsæll kennari til áratuga og eldheitur jafnaðarmaður af gamla skólanum. Þrátt fyrir að hafa átt Trabantinn sinn í aðeins hálft annað ár situr hann ennþá uppi með nafngiftina – og hefur bara gaman af því. Hér tekur hann sjálfan sig til kostanna í samtali við Sigmund Erni Rúnarsson og ræðir um bæinn sinn og uppeldið, miðbæjarlífið og fyrstu pólitísku útskúfunina, svo og langvarandi sjálfsofnæmi sem markaði líf hans um árabil, en líka kennsluna, sem átti að vara í einn vetur, en varð að langri og farsælli starfsævi. 

„Ég tel mig heppinn að hafa fæðst uppi á Brekkunni og fengið að verja þar fyrstu æskuárunum, því umhverfið allt var verndað og öruggt og hélt vel utan um mann,“ segir Magnús sínum kyrra rómi þegar við hefjum spjallið okkar og veljum því stund og stað í Möðruvallastræti á því herrans ári 1941. „En það var auðvitað stríð,“ bætir hann við og meinar heila heimstyrjöld sem var með sína fyrirferð á Akureyri eins og víðast hvar á byggðu bóli: „Hermennirnir sem voru hérna í stríðslok gáfu okkur krökkunum stundum súkkulaði. Það voru miklir dagar og merkilegir. Og ég man ennþá bragðið,“ segir hann blíðlega og hverfur aftur um langa hríð í huganum.

Glannalegur miðbærinn

Foreldrar Magnúsar voru Jóhanna Aðalsteinsdóttir húsfreyja og Aðalbjörn Austmar sem starfaði hjá Rafveitunni í bænum: „Hann var það sem kallað var rukkari,“ útskýrir Magnús, en faðir hans hafði sumsé þann starfa að lesa af mælum bæjarbúa og hafa af þeim gjald í samræmi við grandgæfilegan álesturinn. Fjölskyldan taldi þau þrjú og eina systur og saman settu þau ofan í töskur og pinkla og fluttu sig um set þegar Magnús var á sjötta ári. Ný heimkynni gátu vart verið nær miðbænum, í Strandgötu 4, á hæðinni ofan við Hafnarbúðina – og hafi Brekkan verið verndað umhverfi var Strandgatan næsta berskjölduð.

„Þetta var annað líf,“ segir Magnús, „allt svo opið og glannalegt, að manni fannst, enda fólksbílar og vöruvagnar á þönum allan daginn um rykuga moldarvegina, ýmist krökkir af mannfólki eða yfirfullir af varningi, því allt í kring var miðja verslunar og viðskipta í bænum með höfnina og vörugeymslur á aðra hönd og allar búðirnar á hina. Þarna ægði eiginlega öllu saman,“ segir Magnús og rifjar upp skúmaskotin öll og afkimana á athafnasvæðinu fyrir ofan Torfunef: „Á milli Strandgötu og Hafnarstrætis var mikill fjöldi skúra í einni kös – og maður lifandi hvað þar var mikið af rottum. Fyrir suma þá strákana sem höfðu áhuga á veiði var þetta mikil áskorun, en sjálfur gaf ég mig lítið að rottuveiðum – og fannst þetta allt fremur ógeðslegt.“

París, stikk og slagbolti

Og talið berst að annarri dægradvöl æskunnar á Akureyri um þetta leyti síðustu aldar: „Kosturinn við miðbæjarlífið á veturna var hvað stutt var upp í Skátagilið. Þar fórum við á sleðum og skíðum og húrruðum niður brekkuna fram á kvöld. Á sumrin var aftur á móti hoppað um í París, sem var nú alltaf nokkur kúnst, en þess á milli farið í stikk; ýmist með einseyringi, túeyringi eða í fimmeyringi og miðið var annað tveggja upp að næsta húsvegg eða á krítarstrik á miðri stétt. Svo var slagboltinn alltaf svolítið sport, á Strandgötunni var hann stundaður inn í Símaportinu sem við kölluðum svo og var á milli gatna, en í minningunni er það náttúrlega svakalegur leikvangur og hélt utan um flestar okkar frístundir.“

Á eftirstríðsárunum þegar Magnús er ennþá barnungur maðurinn var fátækt mikil á Akureyri eins og annars staðar í kollsteyptri Evrópu. Allt það efnaleysi situr fast í minningu hans: „Ég man að það var náttúrlega aðalsportið á þessum tíma að komast í bíó og sjá öll ævintýrin uppi á hvíta tjaldinu, en á þessum tíma var það ekki á færi nema efnaðri fjölskyldna að senda börnin sín í kvikmyndahús. Þess vegna er það mér svo kært að rifja upp öll þau skipti sem dyraverðirnir sáu aumur á efnaminni krökkunum og hleyptu þeim inn, stundum í hléi, stundum jafnvel strax í byrjun. Á þessum árum vissu allir allt um alla – og Raggi, Gunni Lofts og Stjáni, sem voru aðalkarlarnir í gættinni, gátu auðveldlega miðað þá út sem áttu skilið að lyfta sér upp án nokkurs kostnaðar. Og það gerðu þeir af og til, einfaldlega af samfélagsástæðum.“

Pólitíska útskúfunin

Víkur tali okkar næst að heimilinu á hæðinni ofan Hafnarbúðar: „Í endurminningunni var alltaf verið að karpa um pólitík. Pabbi var sannfærður krati, en bróðir hans, sem var oft í heimsókn, var gallharður sjálfstæðismaður. Og það sem þeir gátu rifist um stefnur og strauma, menn og málefni. Heilu kvöldin sofnaði ég undir orðaflaumnum sem barst í boðaföllum út úr eldhúsinu þar sem setið var yfir svörtu kaffi og rifist hart um þjóðmálin. Ég drakk þetta auðvitað í mig – og hafði afskaplega gaman af, enda fróðleiksfús í meira lagi. Um þetta leyti var ég líka byrjaður að selja Moggann í lausasölu, já, vinur minn, bera út sjálfan andstæðinginn, en það kom ekki í veg fyrir það að ég byrjaði að lesa í mig öll þau ósköp sem þar var að finna af heimsins flóknustu stjórnmálum. Uppeldið kenndi mér einfaldlega að fylgjast með umheiminum.“

Og svo fór auðvitað að Magnús litli tók afstöðu: „Já, ég hallaðist náttúrlega að afstöðu pabba, enda ívið öruggara en að veðja á aðra fjarskyldari! En í alvöru talað; jafnaðarstefnan hreif mig strax á unga aldri sakir þeirrar mannvirðingar sem hún felur í sér; hún gerir einfaldlega ráð fyrir öllum og býr til stærsta samfélagið.“ Og kratinn frá unga aldri rifjar upp hvernig hann eignaðist smám saman sína helstu andstæðinga í pólitík: „Já, sjálfstæðismenn voru vitaskuld höfuðandstæðingar í byrjun, en þá ekki síður kommar sem voru að mínu viti álíka miklir öfgamenn og íhaldsliðið. Aftur á móti hafði ég samúð með  framsóknarmönnum, af því þeir gerðu ráð fyrir samvinnu og jöfnuði á mínum unga aldri. En það átti eftir að breytast,“ segir Magnús næsta myrkum rómi og býr sig undir að greina frá nokkrum tíðindum úr kvikum dögum ungdómsins: „Þetta breyttist allt með Framsóknarflokkinn eftir 1. júní 1955,“ segir hann og setur í brýrnar: „Á þessum tíma komu timburskipin til Akureyrar hvert af öðru og vaninn var sá að við strákarnir fengjum að afferma þau og stafla timbrinu uppi í stæður eftir lengd og breidd. Og vinnukaupið var ekkert slor fyrir okkur strákshvolpana, enda varði törnin vanalega í nokkrar vikur. Nema hvað, að þennan dag kemur að landi skip á vegum Sambandsins, hlaðið timbri – og straumur okkar strákanna lá auðvitað niður á höfn. En þar var fyrir einhver verkstjóri, líklega innvígður, og raðaði okkur upp á strik og krafðist nafns og faðernis af hverjum okkar. Og það var ekki að sökum að spyrja; alla framsóknartengda réði hann á punktinum, en hina, svo sem eins og mig, sendi hann burt eins og smáskratta – og raunar hafði hann á orði í mínu tilviki að afi minn hefði unnið hjá Eimskip og þótt hann væri látinn fyrir átta árum ætti ég fráleitt heima annars staðar en þar. Þannig komst ég að því að sérhagsmunagæska Framsóknar náði vel út fyrir gröf og dauða. Og því fór það svo að þarna eignaðist ég nýjan andstæðing; Framsókn var komin í safnið a tarna með íhaldi og kommum.“

Barist við sjálfsofnæmið

Nokkrum árum síðar tóku við einhver erfiðustu árin í lífi Magnúsar á Strandgötunni. Hann tók að verkja af íþyngjandi meltingarkvilla sem ágerðist eftir því sem heldur leið á táningsárin. „Líklega var þetta eitthvað sem kallað hefur verið sjálfsofnæmi á seinni árum,“ segir Magnús og það er að heyra á rödd hans að minningin frá þessum tíma er ekki rósrauð: „Það tók mig ellefu ár að komast yfir þessi veikindi – og þau kostuðu mig meðal annars stóran hluta úr skólavistinni, enda fór það svo að ég tók landsprófið tveimur árum seinna en jafnaldrar mínir. Ég var meira á spítalanum en í skólanum. Og líklega hef ég misst af mestum glansa mótunarskeiðsins,“ segir hann og býr til þá spurn á vörum spyrilsins hvort reynslan hafi mótað hann og merkt: „Alveg klárlega,“ svarar hann hispurslaust og bætir við af sínu æðruleysi: „Á menntaskólaárunum lagðist ég oft og tíðum inn á gamla góða spítalann minn til þess eins og ná kröftum. Ég var góðkunningi á þeirri góðu  stofnun og stundaði hana af álíka krafti og jafnaldrar mínir skemmtanalífið.“ Og það sést í gamalkunnugt glott á vörum Magnúsar: „Ég var 25 ára gamall þegar ég komst loksins yfir þessi veikindi með síðustu skurðaðgerðinni sem losaði mig að lokum við þessi ósköp – og ég hef verið þakklátur maður síðan.“

Við tölum um stjórnmálin – og Magnús réttir úr sér: „Ég hef styrkst í trúnni á jafnaðarmennskuna eftir því sem liðið hefur á ævina. Að einhverju leyti get ég þakkað það þeim mikla læriföður sem Gylfi Þ. Gíslason var á mínum yngri árum. Það var varla hægt að hugsa sér vandaðri og prúðari stjórnmálamann en Gylfa, sem jafnframt talaði af djúpri sannfæringu og alkunnu viti. Svona menn hrífa mann með sér. Og ég fór ósjálfrátt að lesa mér meira til um stjórnmál og sögu þeirra eftir því sem ég hlustaði meira á Gylfa. Á þessum tíma voru kratar líka að berjast fyrir almannatryggingum sem er hornsteinn seinni tíma velferðarkerfis. Ég sá strax hvað þetta skipti miklu máli fyrir vöxt og viðgang samfélagsins alls,“ segir kratinn síungi sem fær næst að glíma við þá eðlu spurningu sem lítur að innihaldi jafnaðarmennskunnar – og  fyrir hvað stendur hún? „Jöfnuð,“ segir hann strax og óhikað, „fyrst og síðast jöfnuð – og svo ég líti svolítið til baka; hún berst fyrir því að allur almenningur hafi til hnífs og skeiðar og enginn verði útundan. Þetta eru lykilgildi. Þau lita mann allan að utan og innan. Enn þann dag í dag held ég til dæmis alltaf með litlu liðunum í fótbolta,“  segir hann hlæjandi og svarar þessu næst fyrir þau sígildu stef sem jafnaðarstefnan tónar og hafa lifað af flestar, ef ekki allar aðrar stefnur stjórnmálanna: „Kannski, vinur sæll,“ segir hann af vanalegu hæglæti sínu, „er jafnaðarmenskan bara að boða það sama og Jesús Kristur hefyur gert í árþúsundir; að allt sem menn vilji að aðrir menn gjöri þeim skuli þeir og þeim gjöra. Kannski snýst jafnaðarmennskan fyrst og síðast um það að gera ekki greinarmun.“

Passleg stærð á sambýli

Hann er mikill Akureyringur. Og aðspurður um það efni, tekur hann af allan vafa: „Þú mátt kalla mig mikinn Akureyring. Mér finnst Reykjavík falleg og unaðsleg á sinn máta – og ég bjó þar reyndar í tvö yndisleg ár – en fyrir mig lítur hún alltaf best út í baksýnispeglinum á leið upp Ártúnsbrekkuna.“ Hann talar um töfra heimabæjarins sem hverfist jafnt um sögu, bæjarstæði og gróðursæld. „Hér helst svo margt í hendur. Myndin er svo full og litrík, ekki síst af Vaðlaheiðinni á móti okkur sem teiknar árstíðirnar með svo einstökum hætti að útsýnið er aldrei eins. Og svo er hitt,“ bætir hann við: „Akureyri er einfaldlega svo passleg stærðá sambýli.“

„Eftir hálft annað ár gafst ég upp og kom að máli við Gunna Sót, sem seldi notaða bíla um þetta leyti, og sagði honum sem satt var að ökumælir bílsins sýndi ellefu þúsund kílómetra; níu væru eknir, en tveimur hefði verið ýtt.“

Flestir Akureyringar þekkja viðmælandann með sérstæðu auknefni sínu. Maggi er Trabant. Og þegar talinu víkur að því er karlinn harla fljótur til svars: „Þegar við Ragna konan mín ætluðum að endurnýja fyrsta bílinn í okkar eigu, líklega um 1964, var einhver umræða í gangi um það að hingað til lands væru að koma ódýrir bílar fyrir alþýðu manna austan úr eystri byggðum Þýskalands. Þeir voru sagðir heita Trabant og kosta minna en fjögurra ára gamlir jálkar heima á Íslandi. Við hjónin slógum einfaldlega til, keyptum þann fjórða sem kom til landsins, en vorum greinilega eitthvað óheppin með eintakið eins og síðar átti eftir að koma á daginn. Gangtruflanirnar voru varanlegar. Og svo fór ég gat ekki annað en lagt honum framan við íþróttahúsið norðan við Gagnfræðaskólann þar sem ég kenndi á daginn, svo ég gæti rennt honum aflvana niður brekkuna undir kvöld. Stundum dugði það ekki til – og því var ekki ónýtt að eiga hjálpsama nemendur að sem sáu aumur á kennara sínum niðri í bæ og ýttu bíl hans nokkurn spöl, eða allt þar til hann hrökk í gang með harmkvælum. Eftir hálft annað ár gafst ég upp og kom að máli við Gunna Sót, sem seldi notaða bíla um þetta leyti, og sagði honum sem satt var að ökumælir bílsins sýndi ellefu þúsund kílómetra; níu væru eknir, en tveimur hefði verið ýtt.“

Einn vetur varð að 34 árum

Magnús var kennari og síðar aðstoðarskólastjóri við Gagnfræðaskóla Akureyrar alla sína starfsævi, en það hlutskipti bar brátt að: „Ég hugðist fara í sagnfræði í Háskóla Íslands haustið 1963, en daginn fyrir brottförina suður spurði Ármann Helgason mig hvort ég gæti ekki hugsað mér að kenna við Gagnfræðaskóla sinn í svo sem eins og einn vetur. Mér fannst það freistandi, enda ennþá beygður af langvinnum veikindum og taldi hagfelldara fyrir mig að dvelja heima um sinn. Það urðu 34 ár – og framan af notaði ég hvert sumarið af öðru til að afla mér kennararéttinda á sumarnámskeiðum, auk þess sem ég nam íslensku og uppeldisfræði við Kennaraháskóla Íslands um eins árs skeið á öndverðum níunda áratugnum.“ Og þegar ég spyr hann hvað sé mikilvægast við kennslu stendur ekki á svarinu: „Þekking og vönduð mannleg samskipti eru meginatriði góðrar kennslu, en þess utan skipta þolinmæði og umburðarlyndi höfuðmáli,“ mælir lærimeistari þúsunda Akureyringa sem hann þekkir marga hverja, ef ekki flesta ennþá úti á götu. „Ég hef átt því láni að fagna að kynnast stórum hluta bæjarbúa. Á hverju ári fóru um bekkina sem ég kenndi um 150 manns – og fjöldinn var auðvitað enn meiri sem ég kynntist þau 16 ár sem ég var aðstoðarskólastjóri.“

Honum finnst gott að eldast í heimabænum sínum sem hann metur svo mikils að heyra má aðdáun í hverju þeirra orða sem hér fara á eftir: „Svipmótið er svo sterkt og hefur haldist allan tímann á meðan Akureyri hefur verið að stækka og breiðast út um bæjarlandið. Stallarnir, brekkurnar, höfðarnir og gilin eru og verða alltaf á sínum stað; einmitt þetta einstaka bæjarstæði sem fær mann til að reigja höfuðið svolítið í átt til himins sem er ívið hollara en að vera niðurlútur alla daga. Og sjáðu hvernig allt er rammað inn í stórkostlegan sveig; gróðursæl Vaðlaheiðin í austri, Kjarnaskógur í suðri, Hlíðarfjallið í vestri og óspilltar Krossanesklappirnar í norðri. Það er varla til betra hreiðurstæði.“

-Sigmundur Ernir Rúnarsson. Birtist í jólablaði Samfylkingarinnar á Akureyri 2014