Að láta hjartað ráða för

Hilda Jana Gísladóttir er 41 árs, með B.ed. gráðu frá Háskólanum á Akureyri og fyrrum sjónvarpsstjóri N4. Hún skipar 1.sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar á Akureyri.  Hilda Jana er gift Ingvari Má Gíslasyni, fjármálastjóra Norðlenska og varaformanns KA. Þau eiga þrjár dætur, Hrafnhildi Láru 21 árs, Ísabellu Sól 13 ára og Sigurbjörgu Brynju 12 ára. Móðir Hildu Jönu er Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga og faðir hennar er Gísli Gíslason, rekstrarstjóri Samkaup Úrval.

Tilviljun réð því að Akureyri varð fyrir valinu

Ég elti foreldra mína frá Reykjavík til Akureyrar árið 1996, þá tvítug, ófrísk að mínu fyrsta barni. Hér var einstaklega vel tekið á móti mér, ég upplifði mikið öryggi, umhyggju og kærleika. Ekki síst þess vegna hef ég valið Akureyri sem heimili mitt. Ég varð stúdent frá VMA árið 1997 og fékk í kjölfarið sumarvinnu hjá Akureyrarbæ í forvarnarfræðslu. Í kjölfarið fór ég að kenna í grunnskólum bæjarins, en sá fljótt að það starf krafðist mun meiri fagmennsku en ég hafði og úr varð að ég dreif mig í kennaranám í Háskólanum á Akureyri.

Fjölmiðlabakterían tók völdin

Ég varð formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri árið 2001, það var mér dýrmæt reynsla og leiddi mig að vinnu í fjölmiðlum. Í kringum aldarmótin hóf ég fjölmiðlaferilinn á akureyrsku sjónvarpsstöðinni Aksjón og eftir það var ekki aftur snúið, fjölmiðlabakterían hafði heltekið mig. Eftir útskrift frá HA árið 2003 fór ég að kenna í Giljaskóla og átti þar stórkostlega samstarfsfélaga og samkennara. Fjölmiðlabakterían hafði þó hvergi nærri yfirgefið mig og að lokum tók við starfsferill á því sviði, á Aksjón, Stöð 2, RÚV og að lokum N4, þar sem ég hef starfað síðastliðin níu ár.

Samfylkingin einfalt val

Ástæða þess að ég valdi nú að taka þátt í starfi Samfylkingarinnar er ósköp einfaldlega sú að hugmyndafræði flokksins er næst minni. Ég tel gríðarlega mikilvægt að tilheyra hópi með sameiginlega grundvallar hugmyndafræði og þar að auki tel ég að það sé styrkur fólginn í því tilheyra stjórnmálaflokki sem er með þingflokk, vegna þess að samtal og samstarf milli ríkis og sveitarfélaga skiptir miklu máli. Ég er sannfærð um að því nær sem stjórnsýslan er notandanum, því betri verði hún. Hins vegar hefur reynslan sýnt okkur þá erfiðleika sem þeim flutningi fylgir, ef fjármagnið er af skornum skammti og þá þarf að hafa bein í nefinu til þess að berjast fyrir bæjarfélaginu sínu. Auk þess þá hef ég fylgst með bæjarmálunum og tel að núverandi meirihluti hafi staðið sig vel.

Gott samfélag getur orðið enn betra

Ég hef fengið einstakt tækifæri til að kynnast ýmsum hliðum samfélagsins á þeim 18 árum sem ég hef starfað sem fjölmiðlakona á Akureyri. Ég er alltaf stolt af því að segja að ég sé frá Akureyri. Ég er sérstaklega ánægð með fjölbreytt atvinnulíf, einstaka aðstöðu til íþróttaiðkunar, blómlegt menningar- og listalíf, þá forystu sem bæjarfélagið hefur tekið í umhverfismálum og þá áherslu sem lögð er á menntun, þá ekki síst uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Við eigum líka stórkostleg útivistarsvæði, Kjarnaskóg, Nausta- og Hamraborgasvæðið, Krossanesborgir og ekki síst perlurnar okkar Hrísey og Grímsey. Þó er að sjálfsögðu fjölmargt hægt að gera til að gott samfélag geti orðið enn betra. Þess vegna hlakka ég til að kynna metnaðarfulla stefnu Samfylkingarinnar á Akureyri.

Farsæld fyrir manneskjur

Í mínum huga felst starf bæjarfulltrúa í því að vinna fyrir samfélagið sitt. Þá skiptir miklu máli að þekkja bæjarfélagið sitt vel, vera reiðubúin að hlusta á þarfir þess og finna skynsamlegar lausnir til að mæta þeim þörfum. Fjárhagsleg ábyrgð er síðan að sjálfsögðu grunnforsenda þess að farsæld geti orðið fyrir sem flesta til lengri tíma litið. Mikilvægast tel ég að gleyma því aldrei að fyrst og fremst er hlutverk sveitarfélagsins að þjóna manneskjum og tryggja umgjörð sem gefur möguleika á heilbrigðu og hamingjusömu lífi. Það er einmitt vegna þessa sem slagorð Samfylkingarinnar hitti beint í mark hjá mér „látum hjartað ráða för“.

Hilda Jana Gísladóttir, höfundur skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri

Be the first to comment on "Að láta hjartað ráða för"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*