Framtíðarsýn í skólamálum

Fræðslumál er stór og veigamikill málaflokkur sem flestir hafa skoðun á og jafnan hefur fólk mismunandi sýn og hugmyndir um hvernig best sé að gera hlutina. En þegar öllu er á botninn hvolft þá viljum við öll það sama; það sem er börnunum fyrir bestu. Við viljum öll sjá börn okkar eflast og þroskast á sem bestan og mögulegan máta. Skólarnir eru samfélög þar sem börnin eru í fyrirrúmi og allt starf innan þeirra byggir á því að hver einasti nemandi skipti máli og að honum þurfi að mæta á hans eigin forsendum eins og kostur er. Óhætt er að segja að menntun sé fjárfesting hvers samfélags. Við þurfum að hlúa vel að hverju og einu barni, því í því litla samfélagi sem við búum skiptir hvert barn gríðarlega miklu máli í stóra samhenginu.
Nauðsynlegur fjölbreytileiki

Í framtíðinni viljum við að starfsnám njóti sömu virðingar og hefðbundið bóknám. Við viljum skapa börnum okkar næg tækifæri til að geta spreytt sig á öðrum sviðum en í hinum hefðbundnu kjarnagreinum. Fjölbreytileiki í námi er nauðsynlegur og því fjölbreyttara sem námið er því meiri líkur eru á að flest börn finni hvar hæfileikar þeirra liggja og þannig verður skólagangan ánægjulegri. Í því samhengi hefur oft verið nefndur sá kostur að skólar geti haft sína sérstöðu og að hver skóli sé með mismunandi áherslur, til dæmis einn skóli með áherslu á hreyfingu og annar á listir.

Horfum til framtíðar

Nú í vetur hefur fræðsluráð unnið að tíu ára áætlun. Nauðsynlegt er að skapa sýn og horfa til framtíðar þegar kemur að þessum málaflokki. Allt skólastarf er í þágu barna og mikilvægt er að hlustað sé á raddir barna og þau séu höfð með í ráðum þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Nemendur þurfa að fá þjálfun í ábyrgð og skyldum, frumkvæði, samvinnu og nýsköpun í gegnum fjölbreytt nám sitt. Samtal við nemendur getur aukið skilning þeirra á eðli og tilgangi skólastarfs og virðingu þeirra fyrir því að fá að sækja sér menntun.

Framtíðarsýn um húsnæðismál í leik- og grunnskólum ætti að miða að því að þjónustan sé sem næst hver annarri í hverju hverfi, þannig að barnafjölskyldur geti farið á sömu skólalóð með leik- og grunnskólabörn þar sem því verður við komið. Að vera með bæði skólastig á sama reit skapar hagræðingu í nýtingu fermetra, svo sem varðandi starfsemi skólamötuneyta og fleiri svæða innan- og utanhúss. Jafnframt þarf að miða að því að allar skólabyggingar og skólalóðir séu í góðu ástandi og að tryggt fjármagn sé til eðlilegs viðhalds út frá greiningarþörf.

Nýr leikskóli við Glerárskóla verður klár haustið 2020

Bygging nýrra leikskóla

Senn hefst bygging leikskólaeiningar við Glerárskóla sem á að vera tilbúin haustið 2020 og vegna mikillar uppbyggingar í Nausta- og Hagahverfi er nauðsynlegt að hefja strax undirbúning að nýjum leikskóla í Hagahverfi eða viðbyggingu við Naustatjörn. Ef viðbygging verður fyrir valinu ætti hún að tengja saman Naustatjörn og Naustaskóla. Þar með væri hægt að nýta rýmið í Naustaskóla, sem er nú nýtt fyrir leikskólann, fyrir starfsemi grunnskólans. Samhliða þeirri framkvæmd þyrfti að stofna vinnuhóp um framtíðarsýn á skólabyggingum við Lundarskóla með það markmið að byggja nýjan leikskóla sem tengdur yrði við skólann, með svipuðu fyrirkomulagi og verið er að vinna á Glerárskólareit. Áætluð verklok fyrir framkvæmdir við Lundarskóla gætu verið á tímabilinu 2022-24. Áfram þarf svo að halda með uppbyggingu í Þorpinu og byggja nýjan leikskóla við Síðuskóla sem tæki til starfa 2026-28.

Í allri þessari vinnu er mikilvægt að skoða möguleikann á því að ungbarnadeildir verði í þeim leikskólum sem geta boðið upp á það og gert sé ráð fyrir þeim í nýjum leikskólabyggingum.
Dagbjört Pálsdóttir 2. sæti