Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Börn fæðast ekki jöfn inn í þennan heim. Strax frá fæðingu þeirra er staða þeirra ólík, fjölskyldur eru fjölbreyttar, efnahagurinn er misjafn, heilsufar ólíkt og kynferði hefur áhrif svo eitthvað sé nefnt. Öll börn eiga rétt á því að fá tækifæri til þess að blómstra á eigin forsendum og rækta sína styrkleika allt frá vöggu til grafar. Við förum fæst í gegnum lífið án þess að á móti blási og þá þurfum við á stuðningi að halda. Stundum nægir stuðningur fjölskyldu og vina, en stundum þurfum við á samfélaginu okkar að halda. Misskipting auðs og valds er eitt helsta samfélagsmein okkar og til þess að bregðast við því þurfum við að leita fjölbreyttra leiða til að stuðla að jöfnuði. Við hjá Samfylkingunni á Akureyri viljum halda áfram að hækka frístundastyrk barna og ungmenna. Að auki viljum við tryggja að ónýttir frístundastyrkir renni í sjóð sem nýttur er til þess að styrkja börn og ungmenni sem ekki njóta skipulegs frístundastarfs. Við viljum bretta upp ermarnar og stytta vinnudag barna með öflugu samstarfi skóla, tómstunda- og íþróttafélaga. Algjörlega nauðsynlegt er að stytta biðtíma barna og ungmenna eftir sérfræðiaðstoð. Stórefla þarf fjölbreytta sérfræðiþjónustu innan veggja leik- og grunnskóla. Efla þarf forvarnir og fræðslu um kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi. Við þurfum að taka því alvarlega hversu margir glíma við kvíða, þunglyndi og fíkn í bænum okkar og við þurfum að koma í veg fyrir það að þjónusta SÁÁ hverfi úr bænum líkt og nú er útlit fyrir. Við þurfum að fara í sameiginlegt átak og stytta vinnuvikuna, með það að markmiði að bæta líðan og gera okkur auðveldara fyrir að samræma atvinnulíf og einkalíf.

Við hjá Samfylkingunni erum reiðubúin til þess að leggja okkar að mörkum.

Látum hjartað ráða för

 

Hilda Jana 1. sæti