Treystum innviðina

Þeir eru forsenda öflugs atvinnulífs og góðs mannlífs

Forsendur þess að samfélag virki er að það búi að traustum og góðum innviðum. Í þessari kosningabaráttu eru flestir eða allir sammála um að byggja þurfi upp innviði í hefðbundnum skilningi þess orðs og þá er einkum vísað til verklegra framkvæmda og mikilvægra þarfa atvinnulífsins. Talað er um Akureyrarflugvöll, raforkumál, beint flug til útlanda og samgöngur í víðum skilningi. Um þetta er ekki ágreiningur, en margt af þessu þarf að sækja annað, einkum til ríkisins, til að ná árangri.

En það eru aðrir jafnvel enn mikilvægari innviðir, þó oft sé ekki litið á þá sem slíka. Það eru félagslegir innviðir sem við höfum komið okkur upp og snúast um að hlúa að börnum, ungu fólki, öldruðum, sjúkum og fötluðum, svo nokkrir hópar séu nefndir. Margt hefur verið gert til að byggja upp þjónustu fyrir þá sem þurfa á að halda, en við megum ekki líta svo á að endanlegu markmiði sé náð. Það verður að standa vörð um þjónustuna, því að í raun eru ekki allir sammála um að viðhalda henni og um nauðsyn þess að sækja fram.

Varðstaðan snýst meðal annars um sanngjarna tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, til dæmis þannig að Akureyrarbær greiði ekki á þriðja hundruð milljóna með öldrunarheimilunum. Hún snýst um andstöðu við einkavæðingu, sem byggir á forsendum einkaaðila en ekki á hagsmunum almennings. Varðstaðan snýst einnig  um baráttu gegn orðræðu sem talar niður til þeirra sem höllum fæti standa og þurfa á samfélaginu að halda til að komast af eða komast aftur á rétta braut.

Mikilvægir innviðir

Við þurfum að sækja fram og halda áfram að bæta samfélagið og tryggja öllum jöfn tækifæri og möguleika. Bæta og laga þar sem þess er þörf; taka börn fyrr inn á leikskóla, létta álagi á mikilvægum stéttum eins og kennurum, grípa fyrr inn í hjá börnum þegar félagslegir og andlegir erfiðleikar koma upp, stytta vinnudaginn til góða fyrir börn og fjölskyldur og gera þjónustu við aldraða sveigjanlegri, svo að eitthvað sé nefnt. Allt þetta telst sannarlega til mikilvægra innviða samfélagsins.

En af hverju þarf að telja upp þessa sjálfsögðu hluti? Eru ekki allir flokkar sammála um þetta, rétt eins og nauðsyn þess að leggja bundið slitlag á sem flesta vegspotta? Vissulega væri tilveran bærilegri ef svo væri. En það er því miður ekki þannig í raun, því undanfarin ár hafa hægri flokkarnir snúið ákveðið af braut almennrar velferðar. Það sést best á því að nú þarf að bíða vikum saman eftir tíma hjá heimilislækni, fjöldi aldraðra lifir við fátæktarmörk, félagslegt húsnæðiskerfi ríkisins er ekki lengur til staðar og skattar á lægstu laun hafa hækkað.

Á þessu sést best að það er munur milli flokka og forgangsröðunin er misjöfn. Burtséð frá því hverju er lofað eru það efndirnar sem skipta máli. Samfylkingin er flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku og stendur fyrir félagslegt réttlæti, en sé horft til þróunar undanfarinna ára með aukinni misskiptingu er ljóst fyrir hvað hægri flokkarnir standa. Það skiptir máli hverjir stjórna og þess vegna er mikilvægt að Samfylkingin á Akureyri komi sínum baráttumálum í verk á næsta kjörtímabili. Á laugardaginn greiðum við atkvæði um það í hvernig samfélagi við viljum búa og þá skiptir hvert atkvæði máli.

Orri Kristjánsson 6. sæti