Gott samstarf gulli betra

Samfylkingin hefur í rúm tvö ár setið í meirihluta í bæjarstjórn Akureyrarbæjar ásamt L-lista og Framsóknarflokki. Samstarf meirihlutans hefur verið mjög gott og ákaflega árangursríkt. Þar að auki hefur verið viðhaft mikið samráð við minnihlutann í bæjarstjórn. Í upphafi kjörtímabilsins ákváðu allir kjörnir fulltrúar að vinna sameiginlegan samskiptasáttmála. Sá sáttmáli skapaði grunn að því trausti sem myndaðist meðal bæjarfulltrúa. Nú höfum við ákveðið að ganga skrefi lengra og leggja af meiri- og minnihluta í bæjarstjórn. Markmiðið er að mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs og í rekstri sveitarfélagsins. 

Helsta ástæða þess að við töldum þetta raunhæfan kost var að samhljómur er meðal kjörinna fulltrúa í grundvallarmálum, við núverandi aðstæður. Sá samhljómur felst í því að verja viðkvæmustu hópa samfélagsins, setja hagsmuni barna og ungmenna í forgang, blása til sóknar á íbúa- og atvinnumarkaði og stefna á að því að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær innan fimm ára. Ástæða þess að við töldum þetta ekki aðeins raunhæfan kost heldur einnig eftirsóknarverðan, er að okkar reynsla er sú að allir kjörnir fulltrúar í þessari bæjarstjórn hafi fyrst og fremst áhuga á því að vinna að heilindum fyrir bæjarfélagið sitt. 

Það gefur auga leið að ýmislegt ber að varast í því starfi sem framundan er. Við vitum það vel að við munum ekki öll verða sammála í öllum málum, enda er það alls ekki krafa samstarfsins. Í okkar huga er álíka hættulegt að skapa meðvirkt ástand í pólitík og það er að vera með sýndarmennsku í flokkspólitískum skotgröfum. Við þurfum að einbeita okkur að því markmiði að vinna að heilindum fyrir bæjarbúa, afla gagna við ákvarðanatöku og kjósa í samræmi við sannfæringu okkar. Við þurfum að halda áfram að rýna til gagns, halda á lofti sjónarmiðum ólíkra hópa, greina áhrif ákvarðana okkar á mismunandi hópa samfélagsins sem og bæjarfélagið allt. Í okkar huga erum við að gera merkilega tilraun sem við erum sannfærð um að sé þess virði að láta reyna á. 

Hilda Jana Gísladóttir

Heimir Haraldsson