Archive for Greinar

Velferðarmál í brennidepli

Eitt mikilvægasta verkefni Akureyrarbæjar er að tryggja velferð íbúanna. Velferðarmálin heyra undir félagsmálaráð,  en undir ráðinu starfa fjórar deildir sem sinna mismunandi verkefnum, fjölskyldudeild, búsetudeild, heilsugæslan og Öldrunarheimili Akureyrarbæjar. Akureyrarbær er í þeirri einstöku stöðu meðal sveitarfélaga landsins að á hendi sveitarfélagsins eru verkefni sem að öllu jöfnu er sinnt af ríkinu, málefni fatlaðra, málefni aldraðra og almenn heilsugæsla, og undir stjórn félagsmálaráðs Akureyrar hefur áhersla verið lögð á samvinnu þessara deilda með hagsmuni íbúanna sem þjónustuna þyggja að leiðarljósi. Vel hefur tekist að samþætta þessa þjónustu, svo vel að horft er til Akureyrar sem fyrirmyndarsveitarfélags um margt á þessu sviði. Þannig fékk búsetudeildin hvatningarverðlaun Öryrkjabandlags Íslands árið 2008 fyrir frumkvöðlastarf í útfærslu á notendastýrðri þjónustu og árið 2009 útnefndi Geðhjálp Akureyrarbæ fyrirmyndarsveitarfélag í þjónustu við geðfatlaða. Við getum verið stolt af þessum góða árangri sem byggir á þeim frábæra hópi starfsmanna sem sinnir þessari þjónustu á vegum bæjarins.

Það er mikilvægt að bæjaryfirvöld séu vel vakandi fyrir þörfum íbúanna á þessu sviði og bregðist við með nýjum úrræðum eða breyttri þjónustu í samræmi við breyttar þarfir. Það hefur sannarlega verið gert á undanförnum árum. Því til staðfestingar vil ég nefna nokkur dæmi.

Ráðgjöfin heim er ein tegund heimaþjónustu og ein þeirra nýjunga sem við getum státað af hér á Akureyri. Þjónustan, sem hófst um mitt ár 2006, er ætluð geðfötluðum. Hún er sveigjanleg og einstaklingsbundin og notendur eru aðstoðaðir með hvaðeina er lýtur að daglegu lífi. Þessi þjónusta hefur vakið mikla athygli og hefur verið kynnt víða. Reykjavíkurborg hefur nýtt reynslu okkar til að þróa svipaða þjónustu hjá sér. Þjónusta sem þessi gæti hæglega nýst fleiri hópum í samfélaginu, t.d. öldruðum.

Árið 2007 var Fjölsmiðjan stofnuð. Hún er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á Eyjafjarðarsvæðinu. Fjölsmiðjan er  samstarfsverkefni Rauði kross Íslands, Akureyrarbæjar, Vinnumálastofnunar og Menntamálaráðuneytis.  Fjölsmiðjan er fyrir ungt fólk sem á í erfiðleikum með að fóta sig í vinnu eða námi.  Í Fjölsmiðjunni er rekin verslun sem selur notuð húsgögn og búsáhöld. Starfrækt er bílaþvottastöð, eldhús og fleiri verkefni. Starfsemin hefur gengið vel og er að festa sig í sessi.

Á árinu 2009 var hleypt af stokkunum nýju sérhæfðu meðferðarúrræði fyrir unglinga með hegðunarvanda og fjölskyldur þeirra. Barnaverndarstofa leggur fram fé til reksturs til tveggja ára, en bærinn sá um ráðningar starfsfólk og útvegaði því starfsaðstöðu. Barnaverndarnefnd vísar unglingum og fjölskyldum þeirra í þetta úrræði þegar það á við.  Starfsemin fór í gang síðastliðið haust og var verkefnið að fullu komið í gang um áramót. Til að byrja með er verkefnið tilraunaverkefni til tveggja ára og gangið það vel munum við leggja áherslu á að áframhald verið á þessari þjónustu.

Stöðugt hefur verið unnið að því að bæta aðstæður og aðbúnað íbúa á öldrunarheimilum Akureyrar. Á undanförnum árum hefur verið gert átak í endurbótum á eldri deildum Hlíðar til að mæta nútímakröfum. Herbergjum var fækkað og útbúnar setustofur og borðstofur með eldhúskrók á öllum deildum. Keypt voru ný húsgögn og deildirnar gerðar eins heimilislegar og hægt er. Dagþjónustan í Hlíð flutti á haustmánuðum 2008 í nýuppgert og fallegt húsnæði í elstu byggingunni og þar er nú aðstaða til þess að fjölga rýmum fáist leyfi til þess frá ríkinu. Mikil ánægja er með nýju aðstöðuna sem býður upp á mikla möguleika í þróun þjónustunnar. Um síðustu áramót lauk svo endurbótum í Víðihlíð og er þar með lokið endurbótum á öllum deildunum í Hlíð í góðu samstarfi við Fasteignir Akureyrar.

Það er verkefni bæjaryfirvalda að laga þjónustu eins og kostur er að þörfum íbúa bæjarins á hverjum tíma. Eins og þessi dæmi sýna leita starfsmenn og stjórnendur velferðarþjónustunnar sífellt leiða til þess. Það hefur verið ánægjulegt að starfa sem formaður félagsmálaráðs fyrir íbúa Akureyrar og ég lít sátt yfir verk þess kjörtímabils sem nú er senn á enda. Starfið hefur verið mér mikill og góður skóli og ég er tilbúin til þess að nýta þá reynslu til starfa að þessum málaflokki næstu fjögur árin. Til að svo megi verða þarf Samfylkingin á stuðningi þínum að halda í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Sigrún Stefánsdóttir

formaður félagsmálaráðs og frambjóðandi Samfylkingarinnar á Akureyri.

Verk að vinna

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar eftir rúmar fjórar vikur. Á þessu kjörtímabili hefur Samfylkingin á Akureyri staðið vaktina í meirihluta eftir góðan árangur í kosningum fyrir fjórum árum síðan. Það starf hefur gengið vel og flest þau mál sem lagt var upp með í málefnasamningi náð fram að ganga. Frá hruni Íslenska fjármálakerfisins höfum við lagt áherslu á að bregðast við því áfalli og tryggja rekstur og þjónustu bæjarins til framtíðar. Nýbirtur ársreikningur bæjarins sýnir okkur svart á hvítu að þar erum við á góðri leið. Það er ennþá verk að vinna á þessu sviði en meginverkefni næstu ára er endurreisn atvinnulífs, sókn sem miðar að því að fjölga atvinnutækifærum, auka tekjurnar í samfélaginu og skapa þar með forsendur fyrir ennþá betri þjónustu Akureyrarbæjar við íbúa. Við þurfum vinnu fyrir alla til þess að tryggja velferð allra.

Þess vegna horfir Samfylkingin mjög til atvinnumála í stefnumótun sinni að þessu sinni. Næg atvinna skapar íbúum og bæjarsjóði tekjur og þar með grundvöll þeirrar þjónustu sem við eigum og viljum veita. Þó svo að Akureyrarbær eigi ekki að gerast beinn þátttakandi í rekstri fyrirtækja í bænum getur hann engu að síður gegnt mikilvægu hlutverki við að snúa vörn í sókn. Að því ætlum við að vinna.

Í fyrsta lagi leggjum við áherslu á samvinnu við fyrirtæki bæjarins sem miðar að því að verja og efla  þeirra starfsemi. Við ætlum að styrkja starfsemi Akureyrarstofu og auka þar áherslu á samskipti og samstarf við sjávarútvegs- og iðnfyrirtæki. Jafnframt teljum við að sóknarfæri séu hvað varðar frekari uppbyggingu tækniiðnaðar á Akureyri og munum beita okkur fyrir samstarfi við leiðandi fyrirtæki, Háskólann og framhaldsskóla bæjarins um það verkefni.

Í öðru lagi þarf að  halda áfram uppbyggingu aðstöðu sem gerir bæinn eftirsóknarverðan til búsetu og sem viðkomustað ferðamanna. Akureyrarbær er nú þegar spennandi viðkomustaður ferðamanna, m.a. vegna öflugs menningarlífs og góðrar íþróttaaðstöðu. Við þurfum að styrkja þessa þætti og þar er næsta verkefnið áframhaldandi uppbygging skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. Jafnframt þarf að huga að annarri aðstöðu fyrir ferðamenn sem hingað sækja og tryggja að til séu lóðir, m.a. til að byggja upp hótel.

Í þriðja lagi leggjum við  áherslu á markvissa leit að nýjum atvinnutækifærum og aðstoð við þau fyrirtæki sem hingað vilja koma með rekstur sinn. Við munum áfram vinna að undirbúningi koltrefjaverksmiðju og greiða götu þeirra sem ætla að taka þátt í því verkefni sem og öðrum sambærilegum.

Í fjórða lagi munum við krefja stjórnvöld um réttlátar aðgerðir í þágu atvinnulífsins á svæðinu, t.d. í samgöngumálum. Við munum halda áfram baráttu okkar fyrir því að Akureyrarflugvöllur verði byggður upp sem millilandaflugvöllur og hann markaðssettur sem slíkur. Með sama hætti munum við beita okkur fyrir því að ráðist verði í þær framkvæmdir sem stytta leiðir og draga úr flutningskosnaði fyrirtækja og halda áfram á lofti kröfunni um jöfnun flutningskostnaðar.

Síðast en ekki síst munum við leggja áherslu á að ráðist verði í atvinnuskapandi framkvæmdir af hálfu ríkis og bæjar með það að markmiði að slá á það atvinnuleysi sem nú er um leið og tækifærið er nýtt til að byggja hér upp nauðsynlega aðstöðu af ýmsu tagi til framtíðar. Sérstakt viðhaldsátak af hálfu bæjarins er á dagskrá af hálfu Samfylkingarinnar.

Akureyri þarf á því að halda að í bæjarstjórn setjist fólk sem getur hnýtt saman þekkingu og reynslu af málefnum bæjarins og atvinnulífsins, fólk sem gerir sér grein fyrir því hvar skóinn kreppir og með hvaða hæti er hægt að takast á við þau vandamál sem við er að glíma. En það er ekki síður mikilvægt að í bæjarstjórn setjist fólk með skýra framtíðarsýn og sterka sannfæringu fyrir því hvar framtíðarmöguleikar Akureyrar liggja. Við óskum eftir umboði Akureyringa til þess að starfa í þeirra þágu á komandi kjörtímabili um leið og við hvetjum ykkur til þess að koma til starfa með okkur í þágu bæjarins okkar.

Hermann Jón Tómasson

Bæjarstjóri og oddviti Samfylkingarinnnar á Akureyri