15. sæti | Valgerður S. Bjarnadóttir

Valgerður S. Bjarnadóttir er 36 ára framhaldsskólakennari, doktorsnemi og menntunarfræðingur. Valgerður er gift Arnari Þór Jóhannessyni, sérfræðingi á RHA, en þau eiga Rannveigu menntaskólanema og Jóhannes grunnskólanema. Við skulum gefa Valgerði orðið.

Af hverju Samfylkingin: Ég tengi einfaldlega einstaklega vel við grunngildi jafnaðarstefnunnar. Svo er það líka svolítið útaf Olof Palme. Ég fékk óbilandi áhuga á honum þegar ég bjó í Stokkhólmi fyrir nokkrum árum. Ég las allt sem ég gat um hann og horfði á heimildamyndir og þætti. Heimsótti líka göturnar hans í Vällingby, á Östermalm og fór meira að segja út í Fårö að svipast um eftir sumarhúsinu hans!”

Pólitísk baráttumál: Ég tel að í grunninn séu öll mál pólítísk mál sem þarf að vinna með jöfnuð og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Þættir eins og uppruni, búseta, kyn, kynhneigð, fötlun og félagsleg staða eiga ekki að vera hliðverðir í lífi fólks. Þekking og áhugi minn liggur helst á sviði jafnréttis- og menntamála. Svo brenn ég fyrir umhverfismálum.”

Hvað er best við Akureyri?

Það er ofsalega margt gott við Akureyri. Hér býr gott fólk og það er stutt í allt. Svo er það kaffið á Berlín, Eymó og auðvitað Amtsbókasafnið.”

Hvað má bæta? Ég vil sjá minni plastnotkun, færri bíla á götunum, aðgengilegra strætókerfi og fleiri göngu- og hjólastíga. Einnig vil ég sjá sterkari samfélagslega ábyrgð allra íbúa þegar kemur að til dæmis dýrahaldi og umgengni um bæinn okkar. Hlúa þarf betur að elstu og yngstu íbúum bæjarins og styðja betur við allt fagfólkið sem vinnur í skólunum okkar. Ekki síst þarf að rækta og efla þann mannauð sem býr í margbreytileikanum.”

Skrítin staðreynd um mig: „Ég hef komið í hérumbil allar sundhallir á Stór-Stokkhólmssvæðinu.”

Fyrirmyndir? Helst lít ég upp til þeirra fjölmörgu brautryðjenda í jafnréttis- og mannréttindamálum sem hafa tekið þátt í að breyta heiminum til hins betra og ekki gefist upp þrátt fyrir mótlæti. Svo eru það allar ömmurnar!”

Hvað ætlaði ég að verða þegar ég yrði stór? Á unglingsárunum var ég harðákveðin í því að verða tamningakona og reiðkennari.”

Kláraðu setningarnar:

Unga fólkið okkar… ? „Býr yfir svo mikilli hugmyndaauðgi, eldmóði og hefur svo ótalmargt að segja – við þurfum bara að skapa betri vettvang fyrir raddir þeirra.”

Eldri borgararnir…? Er fólkið sem lagði hart að sér við að byggja upp samfélagið sem við þekkjum í dag. Hlustum, lærum og virðum.

Eitthvað að lokum? Nýtum kosningaréttinn – hann er afrakstur baráttu fyrri kynslóða og ekki sjálfsagður.”