16. sæti | Haraldur Þór Egilsson

Haraldur Þór Egilsson, 45 ára safnstjóri, er í 16. Sæti. Haraldur Þór er kvæntur Sædísi Gunnarsdóttur en þau eiga tvær dætur, Unu og Eik. Gefum Haraldi orðið:

Af hverju Samfylkingin?

Það er jafnaðarhugsjónin. Hvernig getum við í sameiningu hjálpað sem flestum að blómstra? Hvernig getum við veitt öllum jöfn tækifæri til að spreyta sig í lífinu? Það er sú spurning sem ég brenn fyrir. Ég er alinn upp af einstæðri móður og hefði, líkt og hún, ekki haft tækifæri til að stunda framhalds- eða háskólanám ef ekki væri fyrir stoðir samfélagsins.”

Fyrir hverju brennirðu?

Menningarmál, menntamál og félagsþjónusta er það sem stendur hjarta mínu næst.

Þá hef ég mikinn áhuga á ferðaþjónustu sem ég hef kynnst í gegnum safnið. Þar eru tækifæri en líka áskoranir.”

Hvað er best við Akureyri?

Ég segi alltaf við vini mína í Reykjavík að ég hafi eignast fleiri stundir í sólarhringnum eftir að við fluttum til Akureyrar án þess að verða af neinu sem máli skiptir. Hér er allt sem maður þarf, hátt þjónustustig, verslanir, góðir skólar á öllum skólastigum, tómstundir fyrir börnin og blómlegt menningar- og mannlíf. Hér er frábært að ala upp börn og vel búið að íbúum.

Það er svo ekkert verra að búa í svona fallegum og snyrtilegum bæ þar sem er stutt í náttúrufegurð.”

Hvað má bæta?

Við þurfum að hlúa betur að sálartetri barnanna okkar. Ég myndi líka vilja að öll grunnskólabörn hefðu jöfn tækifæri til að stunda í tómstundir og íþróttir.”

Skrítin staðreynd um þig?

Ég hef verið kennari, leikari, flokkstjóri í vinnuskóla, handboltamarkmaður og stjórnað gamanþætti í útvarpi með Óla Jóels úr Game TV.”

Fyrirmynd?

Þær eru margar en kannski eru mestu fyrirmyndirnar og áhrifavaldarnir mamma, amma og afi. Þá finnst mér konan mín alltaf góð fyrirmynd og rödd skynseminnar.”

Hvað ætlaðirðu að vera þegar þú yrðir stór?

Hvenær verður maður stór? Ég átti mér draum um að verða geimfari.”

Kláraðu setningarnar:

Unga fólkið okkar… „…er frambærilegra en fyrri kynslóðir.”

Eldri borgararnir okkar… … verskuldar virðingu og á að vera virkari þáttur í samfélaginu.”