2. sæti | Dagbjört Pálsdóttir

Dagbjört Pálsdóttir, 37 ára bæjarfulltrúi, er í 2. sæti. Dagbjört er gift Jóhanni Jónssyni, markaðsstjóra en þau eiga saman fjögur börn, Margréti Birtu, 17 ára, Elínu Ölmu, 16 ára, Jón Pál, 13 ára og Hólmfríði Lilju 8 ára. Fjölskyldan á einnig svarta labrador hundinn Castro. Við skulum kynnast Dagbjörtu örlítið.

Af hverju Samfylkingin? „Því ég er jafnaðarkona fram í fingurgóma. Þegar ég skoðaði flokkana fyrir rúmum 15 árum var þetta flokkurinn sem fylgdi mínum hugsjónum með jafnaðarstefnu. Með Samfylkingunni slær hjarta mitt.”

Fyrir hverju brennirðu? „Jöfnuði númer eitt, tvö og þrjú. Ég brenn fyrir leik- og grunnskólamálum og umhverfismálum.”

Hvað er best við Akureyri? „Það er svo ótal margt í þessum fallega bæ okkar sem er frábært. Ég myndi þó segja nálægðin við allt, það er stutt í allt og við höfum svo mikið af afþreyingu hér í bæ, bæði úrval af íþróttum og tómstundum ásamt því að hafa flott menningarhús, leikhús og svo margt fleira. Akureyri hefur marga eiginleika smáborgar og hefur mikla möguleika á að vaxa enn frekar.”

Hvað má bæta? „Þrátt fyrir að mikið hefur verið gert á síðustu fjórum árum þá þurfum við að jafna enn frekar möguleika fólks m.a til tómstunda og íþróttastarfs og vinna í því að útrýma fátækt.”

Skrítin staðreynd um þig? „Hef alltaf komist í splitt og kemst ennþá.”

Fyrirmynd? „Mamma mín.”

Hvað ætlaðirðu að verða þegar þú yrðir stór?

„Það var nú einfalt, ég vildi bara verða mamma. Reyndar dreymdi mig um að starfa við umönnun, í hvaða formi sem það væri. Enda er ég lærður sjúkraliði í dag.”

Kláraðu setningarnar:

Unga fólkið okkar… „…er framtíðin okkar og verðum við að hlúa vel að þeim.”

Eldri borgararnir okkar… „…eru í alla staði dásamlegir og við verðum að tryggja þeim sem allra bestu þjónustu sem völ er á.”

Eitthvað að lokum?

„Njótum lífsins!”