Stefnuskráin 2010

Samfylkingin á Akureyri leggur hér fram stefnuskrá sína fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar og næsta kjörtímabil. Við göngum til leiks með skýra stefnu sem mótuð er á grundvelli hugsjóna okkar jafnaðarmanna og þeirra aðstæðna sem mikilvægast er að takast á við til hagsbóta fyrir íbúa Akureyrar. Öflugt atvinnulíf og velferð íbúanna eru forsendur þess að Akureyri verði, hér eftir sem hingað til, góður staður til að búa á. Þess vegna er stefna okkar í þeim anda auk þess sem áhersla er lögð á ábyrga og lýðræðislega stjórnun bæjarfélagsins.


Atvinna og umhverfi.

Þróttmikið atvinnulíf er forsenda þróttmikils samfélags. Samfylkingin vill auka samstarf við atvinnulífið um frekari uppbyggingu og fjölgun starfa.

Markvisst þarf að leita nýrra möguleika til að efla atvinnu og vinna með fyrirtækjum  sem vilja hefja starfsemi á Akureyri. Aflþynnuverksmiðjan í Krossanesi er gott dæmi um árangur slíks samstarfs. Ráðast þarf í framkvæmdir í Hlíðarfjalli svo þar megi fjölga gestum. Einnig munum við krefjast þess að af hálfu ríkisins verði ráðist í stækkun flugstöðvar og flughlaðs á Akureyrarvelli sem myndi skapa grundvöll fyrir stórsókn á sviði ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.
Öflugt menningarlíf Akureyrar er meðal grunnstoða í atvinnulífi bæjarins auk þess að vera ein forsenda þess góða mannlífs sem hér þrífst. Samfylkingin vill hlúa að því og styrkja enn frekar.

Gott skipulag þar sem horft er til framtíðar er forsenda uppbyggingar og ennþá kraftmeira bæjarfélags. Samfylkingin mun beita sér fyrir samþykkt nýs miðbæjarskipulags þar sem tekið er tillit til ágætra ábendinga sem bárust frá íbúum og hagsmunaaðilum eftir auglýsingu þess.

Leggja þarf áherslu á að  umhverfismál í sveitarfélaginu séu í góðum farvegi. Þannig aukum við lífsgæði íbúanna en og styrkjum stöðu bæjarins sem eftirsóknarverðs áfangastaðar ferðamanna. Á næstu árum þarf einnig að leggja sérstaka rækt við útivistarsvæði bæjarbúa og gera þau aðgengileg þannig að þau nýtist sem best fyrir íbúa og gesti bæjarins.

Velferð  fólksins í bænum. Samfylkingin mun leggja rækt við fjölskyldubæinn Akureyri á næstu fjórum árum. Framtíðin felst í því fólki sem nú er að vaxa úr grasi. Þess vegna setjum við fram metnaðarfull áform um bætta þjónustu í þeim málaflokkum er snúa að unga fólkinu. Meginmarkmið okkar er að skapa börnum betri skilyrði til vaxtar og þroska og styðja við foreldra sem uppalendur. Við munum jafnfram leggja mikla áherslu á að efla enn frekar það velferðarsamfélag sem hér hefur verið byggt upp. Stuðningur og samhjálp eru grundvallaratriði í stefnu okkar jafnaðarmanna og mikilvægi þeirra áherslna er nú meira en nokkru sinni.

Undanfarin fjögur ár hefur Samfylkingin starfað í meirihluta bæjarstjórnar og leitar nú eftir umboði Akureyringa til áframhaldandi starfa í þeirra þágu. Verk okkar á síðustu fjórum arum sýna að við stöndum við það sem við segjum, hvað sem öllum áföllum líður. Við erum bjartsýn fyrir hönd Akureyrar því við vitum að við er á réttri leið. Við vitum hvað þarf til og hvert skal stefna og þurfum á ykkar stuðningi að halda til áframhaldandi starfa fyrir bæinn okkar.

Atvinnumál

Það er meginverkefni bæjaryfirvalda í samvinnu við atvinnulífið í bænum að skapa skilyrði fyrir verulega fjölgun atvinnutækifæra í bænum á næstu árum.

Sjávarútvegur, fiskvinnsla og önnur matvælavinnsla ásamt með þjónustugreinum af ýmsum toga munu áfram gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki í atvinnulífi bæjarins auk fjölbreyttra opinberra starfa. Jafnframt því að styrkja þessar greinar með öllum ráðum þarf að ryðja brautir fyrir nýjar greinar sem geta tekið við þeim fjölda starfsmanna sem bætist á vinnumarkaðinn næstu árin og tryggja þeim góð kjör. Þar horfir Samfylkingin einkum til hátækniiðnaðar og ferðaþjónustu.

Atvinnustefna Samfylkingarinnar á Akureyri er lausnamiðuð og vísar til framtíðar. Frumkvæði bæjarins í atvinnumálum hefur gefist vel þar sem lögð hefur verið áhersla á jafnræði, samkeppnishæfni og nýtingu orku og mannauðs á svæðinu. Þá hefur Akureyrarbær komið beint að þróun ferðaþjónustunnar í gegnum starfsemi Akureyrarstofu og þannig stuðlað að fleiri heilsársstörfum í þeirri grein. Þessi stefna hefur skapað skilyrði til vaxtar og vakið áhuga fjárfesta á að byggja upp nýjar atvinnugreinar sem kalla eftir vel menntuðu starfsfólki bæði í bóklegum og verklegum greinum. Áfram þarf að halda á þeirri braut og því munu góðir skólar gegna lykilhlutverki í að tryggja að atvinnulífið fái til hæft fólk til starfa. Þess vegna þarf að stuðla að náinni samvinnu fyrirtækja, skóla, bæjarins og yfirvalda mennta- og atvinnumála í landinu.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili:

 • Styrkja starfsemi Akureyrarstofu og gera henni kleift að sinna betur samstarfi við hefðbundna atvinnustarfsemi í bænum. Góður árangur hefur orðið af samstarfi Akureyrarstofu við aðila í ferðaþjónustu. Har hefur þekking og aðferðir orðið til sem flytja má yfir á aðra þætti atvinnulífsins.
 • Hafa frumkvæði að því að móta stefnu bæjarins sem miðar að því að byggja enn frekar upp tækniiðnað á Akureyri.  Stefnan verði unnin í samvinnu við fyrirtæki í málm-, vél-, raf- og tölvutækni, verkfræðistofur, HA, MA, VMA og ríkisvaldið.
 • Vinna að stofnun og starfrækslu koltrefjaverksmiðju og greiða götu þeirra sem sýna áhuga á þátttöku í slíku verkefni.
 • Bjóða fram lóð undir nýtt atvinnuvegaráðuneyti.
 • Ráðast í mannaflsfrek viðhaldsverkefni á vegum bæjarins.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Atvinnuþróunarfélagið leiti eftir samstarfi við Kínverja um uppskipunarhöfn í Eyjafirði fyrir flutninga frá Kína til Evrópu og Austurströnd Bandaríkjanna..
 • Greiða götu nýsköpunar- og sprotafyrirtækja.
 • Vinna að eflingu verkmenntunar í VMA í samvinnu við ríkisvaldið og fyrirtæki.
 • Stuðla að því að HA eflist enn frekar og geti áfram þjónað bænum, íbúum hans og fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni.
 • Vinna að því að sérstaða Sjúkrahússins á Akureyri verði tryggð og því gert kleift að halda úti öflugri sérfræðiþjónustu.
 • Akureyrarstofa vinni náið með samtökum atvinnurekenda á Akureyri.
 • Hafa frumkvæði að því, í samstarfi við Háskólann á Akureyri, að Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið verði miðstöð þjónustu og rannsókna á norðurslóðum. Viðfangsefni gætu verið þjónusta við olíuleit, námuvinnslu á Grænlandi, við skip nágrannalanda og skip á siglingaleiðinni Asía og BNA og Evrópu.
 • Tryggja áframhald Vaxtarsamnings við Eyjafjörð og eflingu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem hefur rækilega sannað þýðingu þess að hafa frumkvæði í að að laða nýja atvinnustarfsemi til svæðisins.
 • Fela Akureyrarstofu að afla og miðla lykilupplýsingum um atvinnulífið í bænum s.s. um samsetningu vinnuafls, atvinnuleitendur og nýskráningar fyrirtækja o.þ.h.
 • Verja opinber störf í bænum og sækja ný hvenær sem tækifæri gefast. Samfylkingin mun meðal annars beita sér fyrir því að eftirlitsstofnanir ríkisins séu staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins.
 • Akureyrarbær muni beita sér fyrir því að ávallt þegar stofnað er til nýrrar starfsemi á vegum ríkisins verði hagkvæmni þess að hún fari fram á landsbyggðinni skoðuð.

Ferðamál

Akureyrarbær er þekktur sem fjölskylduvænn áfangastaður ferðamanna sem býður upp á mikið framboð afþreyingar, fjölbreytta menningu, veitinga- og gististaði og frábærar náttúruperlur. Samfylkingin vill byggja á þessari sérstöðu og vinna með ferðaþjónustuaðilum að því að ná enn betri árangri og auka þann fjölda ferðamanna sem sækja Akureyri heim, sérstaklega yfir vetrartímann. Það mun gera atvinnugreininni kleift að miða rekstur sinn við heilsársstarfsemi og fjölga þar með störfum.

Með tilkomu menningarhússins Hofs skapast nýir möguleikar til þess að markaðssetja Akureyri sem ráðstefnubæ og auka hlutdeild Akureyrar í ráðstefnumarkaðnum. Mikilvægt er að grípa það tækifæri.

Heilsárs millilandaflug er þess vegna eitt brýnasta hagsmunamál Akureyrar og Samfylkingin leggur mikla áherslu á að ráðist verði í stækkun flugstöðvarinnar og flughlaðs á Akureyrarflugvelli og mun beita sér fyrir því.

Meginmarkmið á þessu sviði:

 • Skapa aðstæður fyrir uppbyggingu gistiaðstöðu sem gerir bænum kleift að taka á móti fleiri ferðamönnum en nú heimsækja bæinn.
 • Styðja vel við öfluga menningarstarfsemi í bænum þannig að hún verði áfram mikilvægt aðdráttarafl fyrir gesti bæjarins.
 • Tryggja að Akureyri verði áfram í fararbroddi sem vinsælasti áfangastaður skíðamanna á Íslandi. Jafnframt verði áhersla lögð á að laða að erlenda skíðamenn.
 • Að Akureyrarflugvöllur verði millilandaflugvöllur og öll aðstaða verði byggð upp miðað við það.
 • Í næsta nágrenni bæjarins eru útivistarsvæði sem bjóða upp á margs konar möguleika s.s. Glerárdalurinn, Hlíðarfjall og Tröllaskagi, auk eyjanna, Hríseyjar og Grímseyjar. Samfylkingin leggur áherslu á að nýta þá möguleika sem þessir staðir hafa upp á að bjóða sem áfangastaðir ferðamanna.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili

 • Ráðist verði í stækkun flugstöðvarinnar hið fyrsta.
 • Flogið verði milli Akureyrar og Evrópu allt árið.
 • Hlutur vetrarferðamennsku á Akureyri verði aukinn. Ráðist verði í framkvæmdir sem miða að því að bæta alla aðstöðu til skíðaiðkunar í Hlíðarfjalli. Jafnframt er nauðsynlegt að bæta alla þjónustuaðstöðu á skíðasvæðinu.
 • Markaðsátak sem miðar að því að markaðssetja Akureyri sem skíða- og ráðstefnubæ.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Auka hlut erlendra ferðamanna sem stunda skíði í Hlíðarfjalli.
 • Auka kynningu á menningu og afþreyingu á Akureyri fyrir farþega skemmtiferðaskipa.
 • Kynna Akureyri sem heilsu- og sælkerabæ.
 • Leggja áherslu á möguleika Tröllaskagans sérstaklega með hliðsjón af opnun Héðinsfjarðarganga.
 • Akureyri verði eftirsóttur áfangastaður fyrir helgarferðir.
 • Að sjá til þess að til staðar séu lóðir á miðbæjarsvæðinu fyrir hótelbyggingar.
 • Fjölga enn frekar leiðarvísum og auka upplýsingar um bæinn m.a. meðfram göngustígum.
 • Nýta betur möguleika Lystigarðsins.
 • Uppbygging þjónustuaðstöðu í Hlíðarfjalli.
 • Gera heildstæða áætlun um uppbyggingu ferðaþjónustu í tengslum við Glerárdalinn.
 • Kynna Grímsey og Hrísey sem ákjósanlega staði til fuglaskoðunar.
 • Kynna og markaðssetja útivistarperlur bæjarins og nágrennis hans í Evrópu.

Félags- og velferðarmál

Samfylkingin leggur áherslu á að tryggja jafnan rétt og aðgengi að  þeim lífsgæðum sem samfélagið býður upp á og að  þjónusta sveitarfélagsins stuðli að velferð allra íbúa.

Verkefni  félagsmálaráðs er að hámarka gæði þeirrar þjónustu sem hægt er að  veita fyrir þá fjármuni sem eru til ráðstöfunar hverju sinni. Mikilvægt er að standa tryggilega vörð um nauðsynlega  þjónustu, fylgjast vel með breytingum á eftirspurn og aðlaga þjónustuna að þörfum  hverju sinni. Starfsemi sem heyrir undir ráðið á að styrkja fólk til sjálfshjálpar eins og kostur er og vera veitt af virðingu fyrir einstaklingnum og sjálfræði hans.

Í því umhverfi sem blasir við eftir hrun fjármálakerfisins með fjárhagserfiðleikum og fjöldaatvinnuleysi er nauðsynlegt að standa vaktina í öllu því sem varðar velferð barna og fjölskyldna þeirra.  Samfylkingin vill tryggja að starfsfólk félagsþjónustu og barnaverndar geti rækt lögboðnar skyldur sínar þrátt fyrir fjölgun mála.

Á komandi kjörtímabili verða mjög stór verkefni flutt frá ríkinu til sveitarfélaga.  Þar ber hæst þjónustu við fatlaða og þjónustu við aldraða.  Akureyri býr þegar að mikilli reynslu í þessum málaflokkum sem nauðsynlegt er að við nýtum að fullu við yfirtöku þessara verkefna.

Meginmarkmið  á þessu sviði:

 • Að Akureyri verði áfram í fararbroddi í þróun samhæfðrar og vandaðrar félags- og heilbrigðisþjónustu.
 • Að mótuð verði velferðarstefna bæjarins þar sem fram komi áherslur og forgangsröðun í þjónustu á sviði félags- og heilbrigðismála, meðal annars í þjónustu við eldri borgara og fatlaða.
 • Að þjónusta stofnana sem heyra undir félagsmálaráð verði endurskoðuð með tilliti til breyttra samfélagsaðstæðna og sniðin að nýjum veruleika.
 • Að málefni barna verði höfð í forgrunni og forgangsröðun bæjarins endurspegli vilja til að styðja vel við börn og barnafjölskyldur með það að markmiði að þau hafi sem bestar aðstæður til að njóta hæfileika sinna og skapa sér gott líf.
 • Að stuðla að því að fjölskyldur í fjárhagserfiðleikum sem missa húsnæði sitt fái viðeigandi aðstoð.
 • Að tryggja að allir bæjarbúar, óháð heilsufari eða fötlun hafi kost á búsetu við sitt hæfi bæði hvað varðar húsnæðið sjálft og þjónustuna sem þar er veitt.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili

 • Samfylkingin setur í forgang að tryggja úrræði sem nýst geta öllu fólki í atvinnuleit og öllum þeim sem þiggja framfærsluaðstoð (að hluta eða að fullu) frá sveitarfélaginu.
 • Samfylkingin leggur á það áherslu að þjónusta Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna verði aðgengileg á Akureyri með ráðningu starfsmanns í fullu starfi á vegum RFH.
 • Skammtímavistun fatlaðra að Skólastíg 5 fái nýtt húsnæði sem hentar starfseminni.
 • Að öldruðum sem það geta verði gert kleift að búa á eigin heimilum eins lengi og þeir óska.  Samfylkingin vill gera þeim það kleift með fjölgun skammtímarýma og dagvistarrýma ásamt því að tryggja mönnun í heimahjúkrun og heimaþjónustu.
 • Samfylkingin vill einfalda aðgengi að allri þjónustu bæjarins með því að koma á fót þjónustugátt.  Með einni þjónustugátt munu bæjarbúar geta sótt allar upplýsingar um þá þjónustu á vegum sveitarfélagsins sem þeir eiga kost á á einum stað. Markmiðið er að þar verði einnig veittar upplýsingar og ráðgjöf frá ýmsum ríkisstofnunum.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Væntanlegur flutningur málefna fatlaðra og aldraðra frá ríki til sveitarfélaga á árunum 2011 og 2012 verður eitt af stærri viðfangsefnum félagsmálráðs á komandi kjörtímabili. Mikilvægt er að vel takist til og unnið verði út frá þeirri reynslu og þekkingu sem þegar er til staðar.  Samhliða þessum flutningi vill Samfylkingin efla alla heimaþjónustu og gera þeim kleift að búa í eigin húsnæði sem það kjósa.
 • Samfylkingin leggur áherslu á að rekstur grunnheilsugæslu verði áfram í höndum sveitarfélagsins og að allir bæjarbúar hafi sinn heimilislækni.
 • Samfylkingin setur í forgang að tryggja úrræði sem nýst geta öllu fólki í atvinnuleit og öllum þeim sem þiggja framfærsluaðstoð (að hluta eða að fullu) frá sveitarfélaginu.
 • Samfylkingin leggur á það áherslu að þjónusta Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna verði aðgengileg á Akureyri með ráðningu starfsmanns í fullu starfi á vegum RFH.
 • Samfylkingin vill efla ráðgjöfina heim, sérhæfða heimaþjónustu fyrir geðfatlaða.  Það verður gert með því að efla þjónustuteymið með þverfaglegri samvinnu fagstétta auk þess sem leitað verði eftir þéttara samstarfi við geðdeild FSA þegar það á við.
 • Skammtímavistun fatlaðra að Skólastíg 5 fái nýtt húsnæði sem hentar starfseminni.
 • Efla  þarf stuðning og ráðgjöf við aðstandendur heilabilaðra.
 • Að öldruðum verði gert kleift að búa lengur á eigin heimili óski þeir þess.  Samfylkingin vill gera þeim það kleift með fjölgun skammtímarýma og dagvistarrýma ásamt því að tryggja mönnun í heimahjúkrun og heimaþjónustu.
 • Að aldraðir í Hrísey og Grímsey hafi sama aðgang að þjónustu og aðrir íbúar.
 • Að tryggja áframhaldandi starfsemi Fjölsmiðjunnar.

Fjármál og stjórnsýsla

Góð fjármálastjórn, traustur efnahagur og hagkvæm og skilvirk stjórnsýsla eru forsendur þess að Akureyrarbær verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga í landinu. Það er forgangsverkefni bæjaryfirvalda á hverjum tíma að tryggja vandaða réttláta og hagkvæma stjórnsýslu um leið og áhersla er lögð á skynsamlega nýtingu á sameiginlegum fjármunum bæjarbúa í þeirra þágu.

Samfylkingin vill auka aðkomu íbúa að stjórnun bæjarins með því að tryggja möguleika þeirra til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við  bæjarfulltrúa og með samþykkt reglna um beint lýðræði

Meginmarkmið  á þessu sviði:

 • hagkvæmur og skilvirkur rekstur bæjarsjóðs sem og þeirra stofnana og fyrirtækja sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu hans.
 • að hjá Akureyrarbæ sé lögð áhersla á að góða og árangursríka stjórnun og að starfsmenn séu ánægðir í starfi.
 • að íbúar hafi greiðan aðgang að kjörnum fulltrúum og eigi auðvelt með að kynna sér störf þeirra.
 • að bæta þjónustu við íbúa á Akureyri með því að taka við fleiri verkefnum af ríkinu.
 • Tryggja skal íbúum skilvirka og gegnsæja þjónustu á jafnréttisgrundvelli.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili

 • Samfylkingin mun beita sér fyrir því að bæjarfulltrúar og æðstu stjórnendur bæjarins gefi upplýsingar um hagsmunatengsl sín.
 • Úttekt á stjórnkerfi Akureyrarbæjar með það að markmiði að auka skilvirkni og hagkvæmni starfseminnar.
 • Bæjarstjórn samþykkir að setja reglur um íbúakosningar.
 • Siðareglur verði settar fyrir kjörna fulltrúa og nefndarmenn.
 • Markvisst verði unnið að því að auka rafræna stjórnsýslu hjá Akureyrarbæ.
 • Átak verði gert til að útrýma kynbundnu áreiti og einelti á vinnustöðum Akureyrarbæjar.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Áfram verður unnið að bættri þjónustu bæjarins og starfsmanna hans á grundvelli nýrrar þjónustustefnu bæjarins .
 • Áfram verður unnið að því að efla hverfisnefndir og hverfisráð með því að skilgreina betur hlutverk þeirra og skyldur.
 • Akureyri verði áfram í fararbroddi hvað varðar verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga. Skoðaðir verði möguleikar á að Akureyrarbær taki við fleiri verkefnum frá ríkinu.
 • Áhersla verði lögð á að starfsmenn bæjarins séu ánægðir með starfsaðstæður sínar. Unnið verður að þessu á grundvelli Mannauðsstefnu bæjarins.
 • Tryggt verði að góð tengsl séu milli ráðhússins og íbúa í eyjunum og áfram verði starfrækt skrifstofa bæjarins í Hrísey.
 • Reynslan af framkvæmd Mannauðsstefnu Akureyrarbæjar verður metin á kjörtímabilinu.
 • Samfylkingin vill beita sér fyrir því að stefna í atvinnu, samgöngu- og byggðamálum verði mótuð af sveitarfélögum á Norðurlandi og að þeim verði falin ábyrgð á framkvæmd hennar.

Fræðslumál

Samfylkingin vill standa vörð  um öflugt og fjölbreytt skólastarf þar sem fagmennska er í  fyrirrúmi. Allir skulu eiga kost á fjölbreyttri og góðri menntun frá leikskóla til háskóla óháð atgervi, efnahag, uppruna og búsetu. Áhersla er lögð á að í skólastarfinu sé tekið mið af þörfum sérhvers nemanda og komið í veg fyrir hvers konar mismunun.

Samfylkingin leggur áherslu á  hagkvæman og ábyrgan rekstur skóla og vill stuðla að þróun rekstrarforma, en mun ekki standa að einkavæðingu á sviði skólamála.

Meginmarkmið  á þessu sviði:

 • Öll börn skulu eiga kost á dagvistun frá því að fæðingarorlofi lýkur og leikskóla frá 18-24 mánaða aldri. Áfram verður lögð áhersla á að hlutur foreldra í kostnaði við þessa þjónustu verði hóflegur og að foreldrar geti nýtt sér hana óháð efnahag.
 • Samfylkingin vill að foreldrum standi áfram til boða að velja leik- og grunnskóla fyrir börn sín. Gera þarf skólum Akureyrarbæjar auðveldara að þróa sérstöðu sína á forsendum styrkleika og frumkvæðis stjórnenda og samvinnu starfsmanna og foreldra.
 • Samfylkingin vill að öll börn eigi kost á sveigjanlegri og hnökralausri framvindu milli skólastiga.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili

 • Stjórnkerfi skólamála verður tekið til endurskoðunar með hagræðingu og sparnað að markmiði. Þeir fjármunir sem þannig sparast verði nýttir til að auka möguleika skólanna til að koma til móts við nemendur.
 • Samfylkingin vill leggja áherslu á að máltíðir fyrir öll grunnskólabörn verði settar í forgang sem hluti af heildstæðum skóladegi og að greiðsla taki mið af efnahag foreldra.
 • Áhersla verður lögð á virkan og samfelldan þjónustutíma grunnskólanna til klukkan 15 og 16 á hverjum degi þar sem öllum börnum gefst kostur á að taka þátt í íþróttum, listum eða markvissu félagsstarfi .   Stjórnendum grunnskólanna verði falin ábyrgð á framkvæmd verkefnisins.
 • Samfylkingin vill setja aðgerðir gegn einelti, yfirgangi og félagslegri mismunun í forgang – og sérstaklega beina aðgerðum að þjálfun og þekkingu starfsmanna – og viðbrögðum að gerendum ekki síður en þolendum.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Skólum verði tryggðir möguleikar til að leggja aukna áherslu á verk- og listnám í skólastarfinu.
 • Halda a.m.k. tvö stefnumótunarþing um skólamál á kjörtímabilinu með þáttöku allra skólastiga.
 • Stuðla að auknu samstarfi leik- og grunnskóla við stofnanir og fyrirtæki með það að markmiði að auka fjölbreytni í námi.
 • Kannaður verði möguleiki á að koma á gjaldfrjálsu tilboði um nám á grunnskólastigi fyrir 4ra og 5 ára börn – með samstarfi leikskóla og grunnskóla – þar sem stefnt væri að 6 klukkustunda virkum þjónustutíma og 180 þjónustudögum.
 • Áfram verði lögð áhersla á samstarf við HA um skólaþróun á Akureyri. Sérfræðiþjónusta –  og fyrirkomulag hennar  – auk samnings við Skólaþjónustusvið HA –  verði tekið til endurmats snemma á kjörtímabilinu.
 • Afkastamiklum nemendum verði tryggt tækifæri til að takast á við nám við sitt hæfi.
 • Samfylkingin leggur áherslu á að auka samvinnu við íþróttahreyfinguna, við sérskóla, við frjáls félagasamtök og við foreldra grunnskólabarna í þeim tilgangi að efla þátttöku allra barna í skipulögðu og reglubundnu íþrótta- og tómstundastarfi meðfram lögbundnu námi.

Íþróttamál

Samfylkingin vill stuðla að því að efla Íþróttir og útivist allra bæjarbúa til að auka lífsgæði og heilbrigði. Regluleg hreyfing er nauðsynleg fyrir fólk á öllum aldri og stuðningur við íþróttastarf og uppbygging íþróttamannvirkja er þess vegna mikilvægur hluti þess að bæta líf íbúa og möguleika þeirra á að lifa heilbrigðu og uppbyggilegu lífi.

Hreyfing er sérstaklega mikilvæg ungu fólki. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að stuðla að íþróttaiðkun barna og unglinga með því að skapa þeim fjölbreytta möguleika til þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi.

Akureyri er íþróttabær. Á  síðustu árum hefur verið byggð hér upp ein besta aðstaða til íþróttaiðkunar á landinu. Á komandi árum verður lögð áhersla á að þessi mannvirki nýtist sem best í þágu Akureyringa og gesta þeirra. Ljóst er að þessi aðstaða getur aukið verulega fjölda þeirra ferðamanna sem sækja bæinn heim og þess vegna þarf að tryggja að Akureyri verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga á þessu sviði.

Meginmarkmið  á þessu sviði:

 • Að auka meðvitund íbúa um mikilvægi íþróttaiðkunar og að öllum almenningi standi til boða að nýta sér eins og kostur er íþróttamannvirki  bæjarins.
 • Samstarf við íþróttafélög bæjarins með það að markmiði að stuðla að íþróttaiðkun barna og unglinga. Áhersla skal lögð á að í boði séu fjölbreyttir möguleikar sem höfða til ólíkra hópa.
 • Samfelldur skóladagur barna þar sem íþrótta- og tómstundastarf er skipulagt í beinu og eðlilegu framhaldi af skólastarfinu.
 • Samstarf við íþróttafélög bæjarins með það að markmiði að styðja við og efla starfsemi félaganna þannig að þau geti sem best stutt við íþróttaiðkun bæjarbúa.
 • Styðja við íþróttastarf í bænum með það að markmiði að Akureyri eigi íþróttafólk í fremstu röð í sem flestum íþróttagreinum.
 • Stuðla að því að fjárfestingar og uppbygging íþróttamannvirkja nýtist til þess að laða íþróttafólk allsstaðar að til bæjarins.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili

 • Ráðist verði í framkvæmdir sem miða að því að bæta alla aðstöðu til skíðaiðkunar í Hlíðarfjalli. Áfram verði unnið í samstarfi við ríkið að uppbyggingu aðstöðu í fjallinu undir merkjum Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands. Kannaðir verði möguleikar á samstarfi við áhugasama ferðaþjónustuaðila um uppbyggingu aðstöðu og þjónustu til þess að betur megi sinna þeim mikla fjölda skíðamanna sem þangað sækir.
 • Íþrótta- og tómstundaskóli verði settur á laggirnar í samstarfi við íþróttafélög og félagasamtök. Akureyrarbær stuðli að því að tengja saman grunnskólastarf, tómstundir og íþróttir eins og kostur er.
 • Gefið verði út fjölskyldukort fyrir akureyrskar fjölskyldur, sem gerir þeim kleift að kaupa ársaðgang að íþróttamannvirkjum á lægra verði.
 • Stefnt verði að því að almenningssamgöngur á milli hverfa og íþróttamannvirkja þjóni betur þörfum barnafjölskyldna.
 • Boðið verði uppá almenningssamgöngur í Hlíðarfjall.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Áfram verði komið til móts við fjölskyldur á Akureyri með stuðningi vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna.
 • Íþróttaskóli fyrir yngri bekki grunnskóla verði skipulagður í samvinnu við íþróttahreyfinguna.
 • Endurnýjun gólfs í íþróttahúsi KA og áhorfendabekkja í Íþróttahöllinni.
 • Gengið verði frá samningi um uppbyggingu keppnisaðstöðu fyrir KA á Akureyrarvelli og æfingaaðstöðu á núverandi æfingasvæði.
 • Uppbygging aðstöðu fyrir siglingaklúbbinn Nökkva.
 • Samvinna við Bílaklúbb Akureyrar um framkvæmdir á svæði félagsins.
 • Hafinn verði undirbúningur að byggingu nýrrar sundlaugar
 • Þórsvöllur fái vottun sem alþjóðlegur keppnisvöllur í frjálsum íþróttum.

Jafnrétti, fjölmenning,  tómstundir og  unga fólkið.

Bærinn okkar á að vera fjölskylduvænn bær með hvetjandi umhverfi fyrir börn og unglinga þar sem þau fái tækifæri til að þroskast og njóta sín sem einstaklingar.  Áhersla er  lögð á að unglingar tileinki sér heilbrigðan lífsstíl og forðist neyslu áfengis og vímuefna og að í boði sé fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn, ungmenni og fullorðna.

Samfylkingin leggur megináherslu á  jafnrétti og mannréttindi og vill standa vörð um jafnrétti kynja á vinnumarkaði, í fjölskyldulífi og hvarvetna í samfélaginu sem og þann góða árangur sem náðst hefur í að útrýma launamun kynja meðal starfsmanna Akureyrarbæjar. Með sama hætti leggjum við áherslu á að tryggja að vel sé tekið á móti nýjum íbúum og þeim gert auðvelt að laga sig að samfélaginu og nýta sér þá þjónustu sem í boði er af hálfu bæjarins.

Meginmarkmið  á þessu sviði:

 • Að Akureyrarbær verði áfram í fararbroddi í jafnlaunastefnu og staðinn verði vörður um þann góða árangur sem náðst hefur í jöfnun launamunar starfsmanna bæjarins.
 • Vinna gegn staðalímyndum kynjanna í samræmi við jafnréttissáttmála Evrópu sem Akureyrarbær er aðili að.
 • Að virkja fólk til þátttöku í ákvörðunum bæjarins sem varða ungmenni og fólk af erlendu bergi brotið.
 • Stuðla að aukinni virkni og námi atvinnuleitenda. Akureyrarbær verði áfram í fararbroddi sveitarfélaga við að rjúfa félagslega einangrun.
 • Fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf í góðu samstarfi við skóla og félagasamtök.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili

 • Forvarnarstefna Akureyrarbæjar verður endurskoðuð í víðtæku samráði við alla þá aðila sem starfa með börnum, unglingum og ungmennum í námi, vinnu og leik.
 • Skipuð verði ungmennaráð og innflytjendaráð til þess að auka íbúalýðræði og þeim falin verðug verkefni.
 • Skapandi sumarstörf verði efld og árangri þessa frumkvæðis Samfylkingarinnar fylgt eftir.
 • Vinna skal að því að nýir íbúar skynji að þeir séu velkomnir og búi við öryggi í samfélaginu. Leita skal allra leiða til að efla þátttöku nýrra íbúa og virkni þeirra í samfélaginu og fyrirbyggja félagslega einangrun. Allir nýir íbúar Akureyrar verði boðnir velkomnir með táknrænum hætti (bréfi, blómum, korti).

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Stofnuð verði Karlasmiðja á líkum grunni og menntasmiðja kvenna og menntasmiðja unga fólksins, þar sem lýðháskólahugmyndin um kaflaskil og að læra fyrir lífið er undirstaðan.  Þetta verkefni verði í samvinnu við ríki og félagasamtök.
 • Að veita veitingastöðum skilvirkt aðhald til að koma í veg fyrir að ungmenni undir lögaldri fái afgreitt áfengi á þeim.
 • Að hlutast til um að ónýtt  græn svæði innanbæjar (skrúðgarðar) verði nýtt sem útivistar og leiksvæði af fjölskyldum bæjarins.
 • Unglingarokk á Ráðhústorgi alla föstudaga á sumrin. Lífga upp á miðbæinn, unglingar vinnuskólans taki þátt í skipulagi þessa verkefnis.
 • Nemendur vinnuskólans aðstoði við mótahald og viðburði á vegum Akureyrarbæjar og íþróttafélaganna.
 • Bæjarfulltrúar, nefndafólk, embættismenn og aðrir stjórnendur sæki námskeið þar sem fjallað verður um kynjasamþættingu og staðalímyndir kynjanna. Þessir aðilar verði ábyrgir fyrir innleiðingu nýrrar hugsunar og vinnubragða í jafnréttismálum.
 • Tjaldsvæði bæjarins séu opin öllum aldurshópum.
 • Í tómstundastarfi og vinnuskóla verði gætt að því að vinna gegn kynskiptingu í viðfangsefnum og úthlutun starfa.
 • Sett verði á fót notendaráð í Rósenborg – möguleikamiðstöð Akureyrar
 • Skilgreint verði hvaða veggir bæjarins séu ætlaðir fyrir veggskreytilist (graffiti) og ungmennum gefin kostur á að nýta sér þá aðstöðu.

Menningarmál

Listir og menning eru orðin ein af grunnstoðunum í atvinnulífi Akureyrar. Menningin styrkir hagkerfið, eflir sjálfsmynd okkar og ímynd út á við. Samvinna listamanna, áhugamanna, stofnana, félaga og fyrirtækja hefur leitt til þess að á Akureyri hefur skapast öflugur atvinnuvegur sem hlúa þarf að og styrkja  enn frekar.

Menningin getur leikið  lykilhlutverk við eflingu ferðaþjónustu og nýtur menningartengd ferðamennska vaxandi vinsælda.  Styðja þarf áfram við öflugt safnastarf á svæðinu s.s. Minjasafnið, Amtsbókasafnið, Listasafnið, Iðnaðarsafnið og Flugsafnið.

Sífellt fleiri gera hönnun og listsköpun að  ævistarfi.  Framboð á menntun og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga bæjarins þarf að endurspegla þennan nýja veruleika. Mikilvægt er að börn og unglingar fái góða fræðslu á sviði lista, læri að njóta þeirra og eigi þess kost að vera  virkir þátttakendur í menningarlífinu.

Meginmarkmið  á þessu sviði:

 • Efla Akureyri enn frekar sem menningarbæ.
 • Gera sem flestum kleift að njóta menningarlífs bæjarins, óháð aldri, stöðu, fjárhag og  búsetu.
 • Styrkja skal menningar- og listalíf bæjarins, m.a. með það að markmiði að auka aðdráttarafl bæjarins enn frekar sem ferðamannastaðar.
 • Bjóða upp á vettvang fyrir þá sem vilja sinna listsköpun í frístundum.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili:

 • Stofna skal listkaupasjóð og veita 1% af byggingarkostnaði við allar nýframkvæmdir Fasteigna Akureyrarbæjar í hann.
 • Nýta sem best þau tækifæri sem skapast með tilkomu Menningarhússins Hofs til eflingar á menningarlífi bæjarins. Markmiðið er ríkið verði þátttakandi í rekstri hússins með sambærilegum hætti og í Tónlistar- og ráðstefnuhúsinu í Reykjavík.
 • Tryggja á börnum og unglingum fjölbreyttari tækifæri í hönnun og listum, í samstarfi við mennta og menningarstofnanir bæjarins.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Endurnýja skal menningarsamning við ríkið og tryggja starfsskilyrði Leikfélags Akureyrar, Listasafnsins á Akureyri og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.
 • Listasögu Akureyrar verði gert hærra undir höfði, listaverkaskrá bæjarins uppfærð og hafin verði markviss kaup á listaverkum.
 • Yfirlitssýning á listasögu svæðisins sé ávallt aðgengileg bæjarbúum og ferðamönnum.
 • Endurskoða skal byggingarlistastefnu Akureyrar og framfylgja henni.
 • Gera á húsakönnun víðar í bænum en gert hefur verið og stuðla að varðveislu hverfa/húsa frá ólíkum tímum í byggingarsögu bæjarins.
 • Efla ber skáldasöfnin með það að markmiðið að þau hljóti sömu stöðu og önnur slík söfn á landinu. Markaðssetja skal Akureyri sem „bæ skáldanna” og nýta skáldahúsin betur.
 • Starfslaunum listamanna verði fjölgað um leið og tækifæri gefst í samræmi við áherslur á listastarfsemi sem atvinnusköpun.
 • Bærinn styðji með myndarlegum  hætti við sýningarhald og listviðburði.
 • Akureyrabær standi fyrir samkeppni um hönnun vandaðra minjagripa sem hafi skírskotun til sérstöðu bæjarfélagsins.

Skipulagsmál

Vandað og vel ígrundað  skipulag leggur grunn að farsæld í daglegu lífi íbúa, stuðlar að jákvæðri og hiklausri þróun atvinnulífs og sparar fjármuni til lengri tíma litið. Í góðu skipulagi endurspeglast framtíðarsýn bæjarfélagsins, vonir og væntingar bæjarbúa og fyrirheit um traust og menningarlegt samfélag.  Því er nauðsynlegt að tryggja gott aðgengi og áhrif íbúa, fyrirtækja og stofnana að vinnu við gerð skipulags, allt frá því að megináherslur eru mótaðar og þar til lokaákvarðanir eru teknar eins og gert hefur verið á yfirstandandi kjörtímabili.

Vinna þarf markvisst að því að upplýsa íbúa  um þýðingu góðs skipulags og hvernig skipulagsvinna fer fram. Stuðla að málefnalegri og vel upplýstri umræðu meðal bæjarbúa í þessum málaflokki með aukinni kynningu og fræðslu. Forðast skal einhliða nálgun svo flókinna viðfangsefna sem skipulagsmál eru en halda til haga og taka eftir föngum tillit til allra málefnalegra sjónarmiða.

Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili

 • Vinna áfram að framkvæmd miðbæjarskipulags.
 • Móta tillögur að uppbyggingu næstu íbúahverfa á Oddeyrinni austan Hjalteyrargötu. Þar verði sjálfbær, þétt og blönduð byggð að evrópskri fyrirmynd.
 • Skipuleggja Glerárdalinn sem fjölbreyttan fólkvang þar sem saman fara íþróttaiðkun, gönguferðir, fjallaklifur og útivist í víðasta skilningi.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Áfram verði unnið að lagningu brauta og stíga fyrir hlaupara, göngufólk, hjólreiðafólk og aðra sem unna góðri hreyfingu.
 • Yfirfara deiliskipulag eldri hverfa þar sem núverandi skipulag hamlar endurnýjun og endurbyggingu þeirra.
 • Stuðla að því að uppbygging færist frá úthverfum til þéttingar og endurreisnar í eldri hverfum.
 • Endurskoða deiliskipulag innbæjarins í anda verndunar.
 • Ljúka við skipulag félagssvæðis Nökkva við Leiruveg.
 • Ganga frá deiliskipulagi í Hlíðarfjalli.

Umhverfis- og samgöngumál

Vinna skal að umhverfis- og samgöngumálum í sveitarfélaginu á grundvelli áherslna um sjálfbæra þróun. Það þýðir að við viljum skila framtíðaríbúum Akureyrar umhverfi sveitarfélagsins, landinu, vatninu og loftinu, í betra ástandi en við tókum við því.

Greiðar og öruggar samgöngur skipta miklu máli fyrir íbúa Akureyrar. Samfylkingin leggur þess vegna áherslu á nauðsyn þess að byggja upp gott samgöngukerfi innan sveitarfélagsins þannig að íbúar komist leiðar sinnar með einföldum og hagkvæmum hætti. Það er jafnframt mikilvægt að leggja áherslu á vistvænar samgöngur og að íbúar eigi þess kost að nota annan samgöngumáta en einkabílinn.

Við leggjum áherslu á  að Akureyri sé vel hirt og snyrtilegt sveitarfélag. Þannig aukum við lífsgæði íbúanna og styrkjum einnig stöðu bæjarins sem eftirsóknarverðs áfangastaðar ferðamanna. Á næstu árum þarf auk þess að leggja sérstaka rækt við útivistarsvæði bæjarbúa og gera þau aðgengileg þannig að þau nýtist sem best fyrir íbúa og gesti bæjarins.

Meginmarkmið á þessu sviði:

 • Að tryggja öruggt og gott almenningssamgöngukerfi með það að markmiði að stuðla að enn meiri notkun þess.
 • Að halda áfram uppbyggingu hjóla- og göngustíga á Akureyri og stuðla þannig að minni notkun einkabíla.
 • Að byggja upp gatnakerfið á Akureyri með áherslu á öryggi og hagkvæmni fyrir íbúana.
 • Að Akureyrarkaupstaður sé vel hirtur og þar sé áhersla lögð á góða umgengni.
 • Að íbúar og gestir eigi greiðan aðgang að útivistarsvæðum í landi bæjarins.
 • Að draga úr urðun sorps og úrgangs frá fyrirtækjum og heimilum og leggja þess í stað áherslu á flokkun, endurnýtingu og endurvinnslu.
 • Að auka notkun innlendra og vistvænna orkugjafa, t.d. lífdísels og metangass, af hálfu bæjarins og stuðla jafnframt að því að íbúar geti nýtt orku af þessu tagi.Forgangsverkefni á komandi kjörtímabili
 • Dalsbrautin verður lögð á kjörtímabilinu en áhersla verður lögð á öryggi gangandi vegfarenda við lagningu hennar.
 • Glerárdalurinn og fjallahringurinn þar fyrir ofan verði gerður að fólkvangi og gengið verði frá deiliskipulagi þar sem göngu-, fjalla- og skíðafólk finnur sér viðfangsefni við hæfi við hlið bæjarins. Leggja á göngustíga úr bænum og meðfram Glerárgili upp á dal og þar tekur við fólkvangurinn með alla sína möguleika.
 • Áfram verði unnið markvisst að uppbyggingu göngu- og hjólastíga í samræmi við fyrirliggjandi skipulag.
 • Umhverfisátak verði árlegur viðburður og þar verði horft til allra þátta, fyrirtækja, heimila og svæða á vegum sveitarfélagsins. Umhverfisverðlaun verða veitt ár hvert til þeirra heimila og fyrirtækja og stofnana sem best sinna umhverfi sínu.

Auk þess viljum við beita okkur fyrir eftirfarandi verkefnum:

 • Áfram verði frítt í strætó. Leiðarkerfið verður endurskoðað með áherslu á að það þjóni betur þörfum barna og unglinga.
 • Íbúum og fyrirtækjum verði gert kleift að skila frá sér flokkuðu sorpi og úrgangi til endurvinnslu. Fræðsla til íbúa um flokkun og mikilvægi hennar  verði aukin. Sorpurðun á Glerárdal verði hætt í byrjun árs 2011.
 • Huga skal sérstaklega að umhverfismálum eyjanna okkar. Umhverfismál í Hrísey og Grímsey verði sérstök verkefni sem stjórnað er af heimamönnum í samvinnu við viðeigandi stofnanir bæjarins.
 • Krossanesborgir, Kjarnaskógur og Naustaborgir og svæðið meðfram Glerá verða gerð enn áhugaverðari fyrir íbúa og gesti meðal  annars með áframhaldandi stígagerð, merkingum og útgáfu fræðsluefnis.
 • Bæta á umhirðu opinna svæða, t.d. með aukinni grisjun runna og trjágróðurs á svæðum þar sem allt of þéttur gróður hindrar aðgengi.  Hamarkotstún og önnur sambærileg opin svæði verði gerð aðlaðandi og þar komið upp aðstöðu til leikja og útiveru.

Be the first to comment on "Stefnuskráin 2010"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*