Frá úrræðaleysi til aðgerða

sigridur_huld_Jonsdottir-1

Sigríður Huld Jónsdóttir skrifaði grein í Akureyri Vikublað í dag 20. mars um hugmyndir Samfylkingarinnar um Ungmennahús.

Heilsugæslan, skólar, Sjúkrahúsið á Akureyri og ekki síst Akureyrarbær verða að tala meira saman og aðstoða ungt fólk og fjölskyldur þeirra til að nýta þau tækifæri sem þeim stendur til boða. Engin ein lausn er til að efla einstaklinga þar sem margbreytileiki einstaklinga er mikill.

Það er vor í lofti. Framundan sólríkari dagar og ný tækifæri. Skólabærinn Akureyri býður upp á ótal tækifæri fyrir unga fólkið okkar en þessi tækifæri eru ekki alltaf nýtt og samfélagið gerir ekki alltaf öllum kleift að nýta þessi tækifæri. Í lýðræðisþjóðfélögum er menntun undirstaða velferðar og eykur líkur á því að einstaklingar nái að dafna í samfélaginu. Á Íslandi hafa allir jafnan rétt til náms óháð t.d. stétt og stöðu, heilsufari og kyni.

Raunveruleikinn er hins vegar ekki alltaf sá. Börn sem eiga við ýmiss konar vandamál að stríða ná ekki að nýta tækifærin sem þau hafa til náms, ekki vegna skorts á vitsmunalegri getu heldur vegna þess að samfélagið hefur ekki skapað þeim aðstæður sem gefur þeim bestu tækifærin til náms. Heilsubrestur foreldra, geðræn vandamál, fátækt, fíkniefnaneysla foreldra eða þeirra sjálfa, vanræksla og ofbeldi eru því miður raunveruleiki sumra barna.

Þessi raunveruleiki er erfiður, ekki bara fyrir þolendur og gerendur heldur líka fyrir samfélagið. Við höfum fá úrræði og þau sem eru til staðar eru ekki alltaf að virka. Skólakerfið og heilsugæslan nær ekki alltaf að greina þessi vandamál og það sem alvarlegra er, grípa ekki alltaf til þeirra úrræða sem þó eru til staðar. Margt er að sjálfsögðu gert til að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra en engu að síður standa foreldrar, börn, kennarar og heilbrigðisstarfsfólk frami fyrir því að í sumum málum ríkir algjört úrræðaleysi. Sérstaklega á þetta við um börn sem eiga við geðræn vandamál að glíma og/eða búa við slæmar félagslegar aðstæður eins og fíkn, vanrækslu eða ofbeldi.

Það er eins og enginn hafi bolmagn til að bregðast við þessum vandamálum og gleggsta dæmið er sú takmakaða geðheilbrigðisþjónusta sem börnum og unglingum á Akureyri stendur til boða. En hvað er til ráða? Þennan vanda þarf að greina frekar og finna leiðir þar sem allir aðilar tala saman og skipuleggja meðferð, aðgerðir og forvarnir. Heilsugæslan, skólar, Sjúkrahúsið á Akureyri og ekki síst Akureyrarbær verða að tala meira saman og aðstoða ungt fólk og fjölskyldur þeirra til að nýta þau tækifæri sem þeim stendur til boða. Engin ein lausn er til að efla einstaklinga þar sem margbreytileiki einstaklinga er mikill.

Líður að kosningum

Nú líður að sveitarstjórnarkosningum og munu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar leggja sitt á vogaskálarnar til að koma þessum málum í þann farveg að leiðir til sjálfshjálpar og sjálfseflingar verði skilvirkari. Stefna okkar er að Akureyrarbær setji á stofn Ungmennamiðstöð þar sem málefnum barna og ungmenna yngri en 18 ára verða sett í farveg með heildarhagsmuni barnanna að leiðarljósi, ekki bara út frá námi heldur einnig félagslegum aðstæðum og heilbrigði. Á ungmennamiðstöð yrðu einhvers konar umboðsmenn barna og ungmenna sem hefðu yfirsýn yfir þau úrræði sem ungu fólki stendur til boða ásamt verkfærum til að efla þau til sjálfshjálpar og sjálfsvirðingar. Hvert barn fengi þannig tilnefndann sinn umboðsmann sem gæti fylgst með skólagöngu þess og velferð frá leikskóla fram til 18 ára aldurs. Slíkt hefur m.a. gefið góða raun í Danmörku. Nánari útfærsla verður kynnt í stefnuskrá Samfylkingarinnar. Einnig yrði ábyrgð sveitarfélagsins á aldurshópnum 16-18 ára meiri en nú er. Hætti einstaklingur á þessum aldri í skóla færi strax tilkynning frá skólanum til ungmennamiðstöðvarinnar þar sem færi af stað aðgerðaráætlun til að koma þeim einstaklingi í virkni og úrræði er lúta að því að efla viðkomandi.

Úrræðin gætu verið margvísleg s.s. að leiðbeina einstaklingi í atvinnuleit eða koma viðkomandi í meðferð við fíkn eða aðra sérhæfða meðferð ásamt fjölskyldumeðferð. Afar miklu máli skiptir að efla fjölskyldur þessara barna því oft á tíðum eru fjölskylduaðstæður með þeim hætti að fjölskyldan er búin að gefast upp í úrræðaleysinu eða er sjálf það veik að hún hefur ekki bolmagn til að standa með og efla barnið. Gefum öllu ungu fólki tækifæri til sjálfshjálpar og sjálfvirðingar – förum bjartsýn út í vorið.

Höfundur er aðstoðarskólameistari VMA og skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í komandi bæjarstjórnarkosningum á Akureyri.

Grein sem birtist í Akureyri Vikublað 20. mars

Be the first to comment on "Frá úrræðaleysi til aðgerða"

Leave a comment

Your email address will not be published.


*