Að leysa úr læðingi

Eitt mikilvægasta verkefni næsta kjörtímabils er uppbygging vistvæns miðbæjar sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn árið 2014. Sú samþykkt var í samræmi við vilja fjölmenns íbúaþings sem lagði áherslu á: a) að byggja hús fyrir neðan Skipagötu austur-vestur til að mynda skjól fyrir ríkjandi vindáttum, b) að tengja miðbæinn við Pollinn og lífið þar, c) að nýbyggingar yrðu lágreist hús og í samræmi við eldri byggð í miðbænum. Um þessar mundir er verið er að ljúka við uppbyggingu húsa sunnan Torfunefs og því tímabært að hefja undirbúning framkvæmda á svæðinu norður að Strandgötu og stefna að því að ljúka þeim á næsta kjörtímabili.

Til að koma þessu viðamikla verkefni af stað þarf fyrst að taka endanlegar ákvarðanir um útfærslu og framkvæmd eftirtalinna undirstöðuverkefna sem eru forsendur þess að unnt verði að hefja uppbyggingu á umræddu svæði:

  1. Útfærslu umferðarmiðstöðvar norðan Ráðhússins.
  2. Ákveða staðsetningu og hönnun bílastæðahúss fyrir miðbæinn.
  3. Útfæra endanlega vistvæna Glerárgötu milli Hofsbótar og Torfunefs.

Þegar ofangreind viðfangsefni eru komin á hreint losnar allt úr læðingi og dýrmætustu lóðir bæjarins verða tilbúnar til úthlutunar. Þá geta áhugasamir sótt um að byggja þar í samræmi við gildandi skipulag. Við það fær bæjarsjóður tekjur sem hægt er að nýta til að byggja upp umferðarmiðstöð og bílastæðahús og til að ganga frá hinni vistvænu Glerárgötu.

Umferðarmiðstöð

Í áðurnefndu deiliskipulagi, sem samþykkt var í bæjarstjórn fyrir fjórum árum síðan, var ákveðið að fyrirhuguð umferðarmiðstöð bæjarins verði norðan Ráðhússins. Fram hafa komið efasemdir um að það svæði sé nægjanlega rúmt fyrir slíka starfssemi. Nú hefur Knattspyrnufélag Akureyrar (KA) óskað eftir að bærinn styðji félagið við uppbyggingu svæðis síns í Lundarhverfi gegn því að félagið dragi sig frá gamla íþróttavellinum. Það opnar möguleika á að nýta neðsta hluta þess svæðis (moldarvöllinn), ásamt Smáragötunni og plássinu suður að ráðhúsinu, fyrir verðandi umferðarmiðstöð. Þess vegna ættu áhyggjur af plássleysi á þessum stað að vera úr sögunni og ekkert því til fyrirstöðu að hanna og byggja löngu þarfa umferðarmiðstöð fyrir bæinn eins og gildandi skipulag gerir ráð fyrir.

Bílastæðahús

Fram hefur komið tillaga um að bílastæðahús fyrir miðbæinn verði sunnan íþróttavallarins, milli Brekkugötu og Hólabrautar þar sem nú er vannýtt svæði. Eðlilegt er að fram fari ítarleg úttekt á þeim valkosti og ef í ljós kemur að hann sé hagstæður verði þar byggt tveggja eða þriggja hæða bílastæðahús enda er sá staður í göngufæri frá miðbænum og ennfremur nálægt umferðarmiðstöðinni. Gert er ráð fyrir að í miðbænum sjálfum verði bílastæði fyrir fatlaða eins víða og við verður komið.

Vistvæn Glerárgata

Í gildandi deiliskipulagi er komið til móts við óskir bæjarbúa um greiðar og öruggar gönguleiðir frá miðbænum niður að hafnarsvæðinu. Af því leiðir að gera þarf talsverðar umbætur á Glerárgötunni frá Torfunefi og norður þar sem mannlífið verður sett í öndvegi. Afraksturinn verður vistvæn og aðlaðandi gata þar sem gangandi, hjólandi og akandi vegfarendur þrífast saman í rólegu og öruggu umhverfi.

Það er aðkallandi verkefni að ljúka uppbyggingu vistvæns miðbæjar á næsta kjörtímabili og vonandi verður góð samstaða um þá vinnu innan bæjarstjórnar.

Hugmynd sem sýnir að ný umferðarmiðstöð myndi sóma sér vel fyrir norðan ráðhúsið – horft frá nýju hringtorgi við Grænugötu.

Greið leið að umferðarmiðstöðinni frá nýju bílastæðahúsi við Hólabraut og einnig áfram austur að Glerárgötu.

 

Ragnar Sverrisson, skipar 8. sæti.