Byggjum á Eyrinni

Grundargatan skartar fallegum gömlum húsum

Í kjölfar samþykktar nýs aðalskipulags er Eyrin tilbúin til uppbyggingar

Eyrin er það hverfi á Akureyri sem gefur mesta möguleika til uppbyggingar. Það er brýn þörf á að bærinn hafi frumkvæði, taki til hendinni og sýni hverfinu þá ræktarsemi sem það á skilið og þarf á að halda. Stofnaður var starfshópur í byrjun núverandi kjörtímabils og hefur hann lokið sinni vinnu. Tillögur hans hafa skilað sér inn í nýtt aðalskipulag svo ekki er eftir neinu að bíða. Á Eyrinni eru óbyggðar lóðir sem sumar hafa staðið auðar árum saman og þeim þarf að úthluta sem fyrst og koma famkvæmdum af stað. Samhliða ætti að skipuleggja svokallað Kelduhverfi, milli Hjalteyrargötu og Laufásgötu, með þéttri byggð þar sem gangandi og hjólandi umferð hefði forgang.

Aukin byggð styrkir miðbæinn

Hverfi svo skammt frá miðbænum hefur mikla möguleika á að koma til móts við fólk sem kýs bíllausan lífsstíl. Staðsetningin hentar vel ungu fólki, það vill gjarnan vera miðsvæðis þar sem stutt er í vinnu og þjónusta er í næsta nágrenni. Aukin byggð á Eyrinni mun líka styrkja miðbæinn og þá þjónustu sem þar er. Markmið skipulagsins þarf að vera skýrt, því að á Eyrinni er kjörið að skipuleggja lóðir undir íbúðir sem eru ódýrar og hagkvæmar í rekstri. Hluta lóðanna ætti að úthluta til félaga sem byggja íbúðir án þess að hagnaðarsjónarmið ráði för. Slíkir aðilar þurfa að hafa forgang um úthlutun til þess að lægra verð skili sér örugglega til íbúa. Einnig þarf að huga að blöndun byggðar með því að bærinn eigi sjálfur hluta þessara íbúða og leigi út, og loks er rétt að úthluta einnig lóðum á frjálsum markaði til leigufélaga og verktaka. Með því verður hverfið fjölbreytt með fólki á ólíkum aldri.

Götumynd Norðurgötu er einstök á Akureyri

Allir njóta

Eyrin hentar vel til að koma þessum markmiðum í framkvæmd samhliða þéttingu byggðar. Það er hagkvæmt að stækka bæinn innanfrá á þennan hátt. Milli Hjalteyrargötu og Laufásgötu má koma fyrir þéttri, blandaðri byggð og í skipulagi yrði að tryggja að hverfið væri í samræmi við þá byggð sem fyrir er, en Eyrin er nú þegar þéttbyggðasta hverfi bæjarins. Með uppbyggingu eldri hluta Eyrarinnar samhliða nýju byggingasvæði næðist fjölgun íbúa á mjög hagkvæman hátt, án þess að ganga á það takmarkaða landrými sem bærinn hefur. Þétting byggðar felur í sér sparnað til lengri tíma fyrir Akureyrarbæ og hún gerir betri almenningssamgöngur mögulegar. Þannig njóta allir bæjarbúar góðs af.

Unnar Jónsson, 4. sæti.

Turninn á horni Norðurgötu og Gránufélagsgötu hefur verið gerður upp.

Glæsilega nýuppgert „Jónasínuhús“, Gránufélagsgötu 19, er bæjarprýði og til eftirbreytni.