Jafnrétti = mannréttindi

Allar manneskjur eiga að búa við jafnrétti og frelsi og jöfn tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Ólíkur bakgrunnur fólks og fjölbreytni í mannlífinu gerir samfélagið auðugra og skemmtilegra. Jafnréttismál eru mannréttindamál sem snerta okkur öll og nauðsynlegt er að sofna aldrei á verðinum.

Bregðumst við #MeToo

Hin öfluga #MeToo alheimsbylting sýndi okkur fram á nauðsyn þess að vinna ötullega áfram að jafnrétti kynjanna. Margir sigrar hafa náðst á opinbera sviðinu en það er ljóst að kynbundið ofbeldi og áreitni er samfélagsmein sem teygir anga sína víða og þarf að uppræta með öllum ráðum. #MeToo byltingin sýndi okkur að þær konur sem eru hvað jaðarsettastar í okkar samfélagi verða fyrir alvarlegasta ofbeldinu. Þær eiga jafnframt erfiðast með að láta raddir sínar heyrast og leita réttar síns. Í þeim hópi eru til dæmis konur með fötlun og konur af erlendum uppruna. Þau dæmi sýna að jafnréttissjónarmið þurfa að hafa breiða skírskotun og mikilvægt er að vera ávallt á verði gagnvart margþættri mismunun.

Aukum fræðslu um jafnréttismál

#MeToo var óþægilegur spegill á samfélagið sem við lifum í. Almannarýmið, íþróttafélög, skólar og vinnustaðir eiga að vera öruggir staðir þar sem virðing ríkir í samskiptum og persónuleg mörk eru virt, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna; óháð kyni, uppruna eða kynhneigð. Þau sem eru við stjórnvölinn verða að vera meðvituð um þessa stöðu og leita leiða til að vinna gegn ofbeldi og þöggun jaðarsettra hópa. Liður í því er að efla fræðslu um jafnrétti kynjanna, málefni hinsegin fólks, fordóma og virðingu í samskiptum. Öflug og fagleg jafnréttis- og mannréttindafræðsla ætti því að vera fastur liður í símenntun allra starfsmanna Akureyrarbæjar.

Nýir Íslendingar

Fólki með annan uppruna en íslenskan hefur fjölgað mjög á Akureyri síðastliðin ár. Það þarf að tryggja aðgengilega upplýsingagjöf til íbúa með annað móðurmál en íslensku og opna dyr þeirra að samfélaginu. Þar er ábyrgð okkar allra mikil. Margoft hefur komið fram hversu erfitt það sé fyrir fólk af erlendum uppruna að fá menntun sína og reynslu metna hér á landi og Samtök kvenna af erlendum uppruna hafa bent á að það sé sérstaklega erfitt fyrir konur. Með því að viðurkenna ekki þekkingu og fjölbreytta reynslu fólks fer samfélagið á mis við margt.

Höldum vöku okkar!

Akureyrarbær hefur hafið ferli til jafnlaunavottunar og því þarf að ljúka. Sömuleiðis er mikilvægt að þróa áfram kynjaðar fjárhags- og starfsáætlanir til að stuðla að réttlátri nýtingu fjármuna. Það á við um hin ýmsu svið; menningu, húsnæði, íþróttir og fleira. Frístundaráð samþykkti nýverið að gera úttekt á jafnréttismálum innan íþróttafélaga bæjarins, þar sem sjónum verður meðal annars beint að æfingatíma, aðstöðu og þjálfun kynjanna. Einnig hefur Samfylkingin á stefnuskránni að gera úttekt á brotthvarfi barna úr íþróttum og ástæðum þess. Íþróttafélög bæjarins hafa tekið #MeToo byltinguna alvarlega og hafið vinnu við að tryggja öryggi iðkenda. Við teljum rétt að skilyrða styrki til þeirra við skýra jafnréttisáætlun og áætlun um ofbeldisvarnir. Þá er mikilvægt að styðja við Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, og sjá til þess að þolendur ofbeldis geti leitað í öruggt skjól. Hér í bæ hefur mikilvægum verkefnum verið komið á laggirnar til að minnka einangrun jaðarsettra hópa og að þeim þarf að hlúa. Frumkvæði og þátttaka einstaklinga og stofnana í þeim efnum er afar mikilvæg og öll getum við gert betur. Stefna Samfylkingarinnar er skýr – Akureyri á að vera í fararbroddi í jafnréttismálum!

Valgerður S. Bjarnadóttir skipar 15. sæti listans