Kosningabaráttan þá og nú

Það skiptir máli hverjir stjórna bænum – og hverjir veljast í bæjarstjórn. Það hefur alltaf skipt máli. Mestu máli skiptir að félagsleg sjónarmið séu þar sterk og að fólk sem býr yfir sterkri réttlætiskennd, víðsýni og bjartsýni eigi þar sæti.

Ég hóf fyrst afskipti af bæjarmálum þegar ég fór í framboð fyrir Alþýðubandalagið vorið 1982; ung kona með tvö börn og eitt á leiðinni. Mér fannst þá mikilvægt að konur tækju þátt og að foreldrar ungra barna létu sína rödd heyrast. Á þeim tíma voru fá úrræði varðandi gæslu og giftir foreldrar og sambúðarfólk þurfti að bíða lengi til að fá pláss á leikskóla og átti ekki kost nema á gæslu hálfan daginn.

Það skiptir máli hverjir stjórna

Á þessu sviði hefur auðvitað orðið bylting, en það var sannarlega ekki baráttulaust. Og enn þarf að gera betur og ekki slaka á. Ég er stolt yfir því að vera þátttakandi í að Akureyri hefur eflst og að hafa átt frumkvæði með góðum félögum að mikilli breytingu á mörgum sviðum; félagslegri þjóustu, þjónustu við aldraða, menningu og listum t.d. uppbyggingu listagilsins, umverfismálum, íþrótta- og tómstundamálum, atvinnumálum, skólamálum og svo mætti lengi telja. En þessir hlutir gerast ekki af sjálfu sér – það skiptir máli hverjir stjórna.

Kosningabaráttan í þá daga var á suman hátt öðruvísi en nú – engir samfélagsmiðlar voru til og engar skoðanakannanir voru gerðar. Meiri áhersla var á blaðaútgáfu og fundi og einn stór sameiginlegur fundur gat verið býsna mikilvægur. Ríkissjónvarpið var einnig með útsendingu þar sem fulltrúar allra flokka komu fram. Árið 1982 voru þrír frá hverjum flokki kallaðir suður til að vera með framsögu um bæjarmál og síðan odddvitar í umræðuþætti. Það skipti oft höfuðmáli hvernig frammistaðan var í þessum þætti – enda var ein sjónvarpsrás og mikið áhorf.

Við þurfum öflugt fólk
En þrátt fyrir breytingar er mjög margt eins; farið er yfir málaflokka og mótuð stefna innan flokkanna og reynt er með öllum tiltækum ráðum að koma henni á framfæri. Tala við fólk, halda fundi, gefa út blöð. Auglýsingarnar eru orðnar meiri, plakötin og myndirnar stærri. En meginbreytingin er tilkoma samfélagsmiðlanna, sem eru óspart notaðir.

Enn er mikil þörf á öflugu fólki í bæjarstjórn – fólki sem hefur jöfnuð að leiðarljósi og setur félagsleg sjónarmið og lausnir í öndvegi. Fólk sem vill að íbúar búi við öryggi – hvort sem það er að verða gamalt eða að hefja lífið, eða hefur orðið fyrir skakkaföllum. Fólk sem trúir á samráð við íbúa og vill hlusta á þá.

Í því fólki sem er í framboði fyrir Samfylkinguna sé ég þessa eiginleika. Ég er stolt af að skipa heiðurssæti á listanum hér á Akureyri. Það er ótrúlega mikilvægt að Samfylkingin komi vel út úr þessum kosningum um land allt – og að þau fái sterk umboð í bæjarstjórn Akureyrar.

Tökum þátt, hvetjum fólk til umræðu um bæjarmál, notum samfélagsmiðlana, lækum og skrifum athugasemdir. En mikilvægast er að flykkjast á kjörstað og setja X við S.

Sigríður Stefánsdóttir
fyrrverandi bæjarfulltrúi