Nei er ekkert svar!

Ég vinn í þjónustu við fólk þar sem ég reiði mig mjög á samstarf við ólíka einstaklinga og hópa. Þegar ég þegar ég finn fyrir miklu álagi í starfi, þreytu og óöryggi þá er ég gjarnari á að svara skjólstæðingum mínum með setningunni „nei, þetta er ekki hægt“. Þessi líðan dregur augljóslega mjög úr gæðum þjónustunnar sem mér ber að veita. Eins þegar ég hef ekki heimild að ofan til að fylgja málum eftir, sem ég væri þó fullfær um að klára upp á eigin spýtur, þá styttist eðlilega í neikvæðni og gremju hjá mér. Það verður svo þess valdandi að ég er ekki eins góður starfsmaður og ég get verið þegar ég upplifi að mér sé treyst til góðra verka. Það skiptir svo ótrúlega miklu að finna að manni sé  treyst til að sinna starfi sínu af fagmennsku, að fá að fylgja málum eftir, að vera hrósað og fá fræðslu ef þekking er ekki til staðar. En af hverju er ég að tala um þetta? Jú, starfsfólk Akureyrarbæjar vinnur þjónustustörf í þágu Akureyringa og gerir það án efa eftir bestu getu og samkvæmt mannauðsstefnu Akureyrbæjar, þar sem öll þjónusta á að vera fagleg, lipur og traust. Stundum lendir starfsfólk í því að „computer says no“ vegna þess að reglur og kerfi málaflokksins sem það sinnir bindur hendur þess.

Eflum þjónustustigið

Reglur eru mannanna verk. Gætum við, með valdeflingu og viðeigandi fræðslu til starfsfólksins, fækkað tilvikum þar sem „nei, þetta er ekki hægt“ verður svarið og aukið þar með vellíðan þeirra sem veita þjónstuna og bætt þar af leiðandi gæði hennar? Samfylkingin telur mikilvægt að skapa skýrari umgjörð um samtal milli þeirra sem veita þjónustu við íbúa bæjarins og þeirra sem setja viðmið um þjónustuna. Ef við sem vinnum í þjónustu við fólk getum fækkað þeim skiptum sem við neyðumst til að segja „nei, þetta er ekki hægt“, mun þjónustan án efa batna og starfsfólk verða ánægðara og farsælla í sínum störfum. Kerfið á að þjóna notendum þess og það á að vera gott að starfa og sækja þjónustu hjá Akureyrarbæ. Tökum mannauðsstefnu Akureyrarbæjar alvarlega og tryggjum faglega, lipra og trausta þjónustu þar sem starfsfólk finnur að fagþekkingu þess sé treyst.

 

Heimir Haraldsson 3. sæti