Við viljum vinna fyrir þig

Síðustu tvo mánuði hefur framboðslisti Samfylkingarinnar verið í atvinnuviðtali við kjósendur á Akureyri. Kjósendur velja sér ekki einn aðila heldur velja þeir sér flokk sem þeir telja að geti unnið sem best að hagsmunum Akureyrar; betrumbætt það samfélag sem við búum í og gert bæinn eftirsóknarverðan að búa í.

Listinn er blanda af hæfileikaríku fólki sem er tilbúið að leggja sig allt fram og af heilindum. Þau efstu á listanum hafa mismikla reynslu af pólitík en hafa gríðarlega reynslu af öðrum sviðum sem nýtist vel í störfum fyrir bæinn. Hilda Jana Gísladóttir, fyrrum fjölmiðlakona og sjónvarpsstjóri N4, skipar fyrsta sætið og fáir oddvitar hafa eins mikla þekkingu á Akureyri, eftir að hafa unnið fréttir frá Akureyri síðustu 18 ár. Í öðru sæti er Dagbjört Pálsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður fræðsluráðs, sem hefur sýnt það á þessu kjörtímabili að er vinnusöm og lausnamiðuð. Dæmi um málefni sem Dagbjört hafði frumkvæði að í fræðsluráði eru gjaldfrjáls námsgögn fyrir öll börn í grunnskólum Akureyrar. Heimir Haraldsson er í þriðja sæti en sú þekking og reynsla sem hann hefur öðlast sem náms- og starfsráðgjafi, bæði í Símey og í MA, mun hafa mikið gildi fyrir starf bæjarfulltrúa. Það er ekki síst mikilvægt fyrir bæjarfulltrúa að hafa skilning á ólíkri stöðu ungs fólks. Unnar Jónsson skipar fjórða sætið. Hann hefur mikla reynslu af málefnum menningar og lista auk þess sem hann hefur m.a. verið stjórnarformaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.
Samfylkingin mun kappkosta að auka jöfnuð á Akureyri og ber stefnuskrá okkar þess merki. Það eru nokkur atriði sem Samfylkingin mun leggja áherslu á komist hún í meirihluta og hvet ég þig lesandi góður að setja hak í reitina þegar þessum markmiðum verður náð:

  • að byrja með ungbarnadeildir og að taka inn börn á leikskóla frá 12 mánaða aldri.
  • að hækka frístundastyrk barna upp í 50.000 kr. og stofna sjóð um ónýtta styrki þar sem hægt verður að sækja um styrk til að styðja starf fyrir börn og unglinga sem ekki sækja skipulegt frístundastarf.
  • að fara í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar
  • að tryggja að starfsemi SÁÁ verði enn til staðar á Norðurlandi
  • að verða plastpokalaust samfélag
  • að stofna félag í samstarfi við hagsmunaaðila og einstaklinga á Akureyri um að byrja reglulegt millilandaflug frá Akureyrarflugvelli
  • að byggja samgöngumiðstöð
  • að gera miðbæinn vistvænni og skemmtilegri
  • að lækka áfram skuldir sveitarfélagsins

Samfylkingin hefur sýnt það á þessu kjörtímabili að hún vinnur með hagsmuni bæjarins að leiðarljósi. Flestir eru sammála um það að bærinn sé einstaklega vel rekinn, störf bæjarstjórnar hafi verið farsæl og að staðan á Akureyri sé umfram allt mjög góð. Því vil ég biðja þig ágæti kjósandi að hugsa um hver þú vilt að verði málsvari þinn næstu fjögur árin. Hvaða flokkur sé með öfluga einstaklinga sem muni vinna með jöfnuð að leiðarljósi og láta hjartað ráða för. Kjósum Samfylkinguna á laugardaginn. Áfram Akureyri.
Jóhann Jónsson, formaður stjórnar.