Látum hjartað ráða för

Þann 26. maí n.k. verður kosið til bæjarstjórnar á Akureyri til næstu fjögurra ára. Samfylkingin á Akureyri er stolt af þátttöku sinni í bæjarstjórn síðustu fjögur árin og sannarlega er hægt að sjá að við höfum haft mikil áhrif á stjórn og stefnumörkun bæjarins. Við viljum halda því áfram.
Ég var afar þakklát kjósendum þegar ég fékk kjörgengi í bæjarstjórn Akureyrar fyrir fjórum árum, algjör nýliði en tilbúin að vinna að hagsmunum bæjarbúa. Samfylkingin hefur verið í meirihluta og í þeim meirihlutasamningi sem gerður var sáust áherslur jöfnuðar og velferðar ásamt því að viðhalda og efla það menningarstarf sem hér hefur verið í gegnum tíðina.

Blómlegt atvinnulíf og menning
Akureyri er sveitarfélag sem hefur fjölbreytt tækifæri til að vaxa og dafna og það er svo ótal margt sem við Akureyringar getum verið stoltir af. Atvinnulífið er blómlegt, menningin blómstrar og nýtt fólk flytur í bæinn. Við eigum góða leik- og grunnskóla ásamt því að hér eru tveir öflugir framhaldsskólar og svo auðvitað Háskólinn á Akureyri. Á kjörtímabilinu hefur verið stutt við nýsköpun og tækni m.a. með því að setja á stofn Fab Lab smiðju og Verksmiðjuna í samvinnu við ýmsa aðra aðila. Þessar smiðjur eru opnar almenningi og nemendum á öllum skólastigum og eru þegar farnar að skila nýjum hugmyndum og efla listsköpun í bænum. Miklar samfélagsbreytingar eru framundan og við eigum eftir að sjá hvernig tæknin mun breyta ýmsu í okkar samfélagi m.a. í þjónustu við íbúa. Akureyri verður að vera leiðandi í þessum breytingum og þar verða íbúar og fyrirtæki að eflast. Starfsfólk Öldrunarheimilanna á Akureyri og búsetusvið bæjarins hafa verið í fararbroddi á landsvísu í svokallaðri velferðartækni sem gengur út á það að nýta ýmislegt úr stafræna heiminum í þjónustu við fólk með fötlun og aldraða. Ég hef fylgst með þessum litlu en mikilvægu skrefum á þessum fjórum árum sem ég hef verið í bæjarstjórn, þar af í tæp þrjú ár sem formaður velferðarráðs. Þessi skref sem hafa verið tekin hafa bætt þjónustu, t.d. hvað varðar virkni þjónustuþega, nýtingu á hráefnum í eldhúsi og minni matarsóun, ásamt því að auðvelda starfsfólki ýmislegt í starfsumhverfi sínu. Við munum halda áfram á þeirri leið.

Hugmyndafræðin skiptir máli
Nú líður að kosningum og mikið er talað um að allir vilji það sama fyrir íbúana; fleiri leikskólapláss, yngri börn inn í leikskólana, bæta þjónustu við aldraða og efla grunnskólana, gera betur í starfsþróun fyrir starfsmenn bæjarins og svo ótal margt annað. Við sem gefum okkur út í það að starfa fyrir bæinn okkar eigum það sameiginlegt að vilja vinna vel að þessum málum með því að bjóða okkur fram. Mér finnst það gæfa sveitarfélagsins að allir flokkar tali um velferðarmál og velferð íbúanna. Málið er hins vegar það að þótt framboðin séu með sambærileg mál á dagskrá þá eru leiðirnar ekki allar eins og það skiptir máli hvaða hugmyndafræði liggur að baki þessum framboðum. Samfylkingin vill jöfnuð og velferð í forgang. Þannig náum við að byggja upp réttlátt samfélag þar sem atvinnulíf blómstrar ásamt listum og menningu. Við í Samfylkingunni viljum að fólki líði vel á Akureyri og við viljum vinna áfram að samfélagi sem lætur hjartað ráða för en ekki sérhagsmuni einstakra aðila.

Þátttaka skiptir máli
Ég geng sátt frá samstarfi Samfylkingarinnar á þessu kjörtímabili sem er að ljúka. Samstarf meirihlutans hefur verið farsælt fyrir bæjarbúa og áhersla á samvinnu allra flokka í ráðum, nefndum og ekki síst í bæjarstjórn. Það er gott að finna að hægt sé að hafa áhrif á samfélagið sitt og að vinna að velferð bæjarbúa eru forréttindi. Samfylkingin bíður nú fram öfluga einstaklinga með reynslu og sýn sem er mikilvæg fyrir Akureyri og íbúa sveitarfélagsins. Ég hvet alla til að nýta kosningaréttinn, látið hjartað ráða för og gerum Akureyri áfram skemmtilegri. Áfram Akureyri – XS

Sigríður Huld Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og fráfarandi oddviti Samfylkingarinnar