Reglur um fundarsköp Samfylkingarinnar á Akureyri

1.    gr.
Stjórnarfundir
Formaður undirbýr fundi stjórnar og boðar fund með dagskrá. Formaður boðar stjórnarfundi með minnst sólarhrings fyrirvara.
Fundarboðun getur verið með rafrænum hætti eða sent í almennum pósti.
Í dagskrá skal vísað til gagna um þau fundarefni sem til umfjöllunar eru eftir því sem kostur er. Dagskrá skal send til stjórnarmanna í síðasta lagi sólarhring fyrir fund.  Hægt er að boða til fundar með styttri fyrirvara ef allir stjórnarmenn samþykkja það. Heimilt er að taka mál til meðferðar þótt það sé ekki tilgreint í dagskrá. Þó er skylt að fresta afgreiðslu slíks máls ef einhver stjórnarmaður óskar þess.

2.    gr.
Formaður stýrir fundum. Fundir stjórnarinnar eru að jafnaði haldnir einu sinni í mánuði. Fundarmönnum er  óheimilt að greina frá ummælum einstakra fundarmanna á fundum.
Stjórnarfundur er lögmætur og telst ályktunarhæfur ef meirihluti stjórnarmanna er á
fundinum.
Varastjórn skal jafnan boðuð á stjórnarfundi og hafa varamenn þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.
Stjórn annarra aðildarfélaga Samfylkingarinnar í sveitarfélaginu tilnefni hvert sinn fulltrúa sem seturétt eigi á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétt.
Stjórnarmönnum er skylt að sækja alla fundi stjórnar nema lögmæt forföll hamli. Sé stjórnarmaður forfallaður um stundarsakir skal hann tilkynna forföllin til formanns.

3.    gr.
Ritari félagsins ritar fundargerðir stjórnarfunda. Formaður sér um að fundargerðir séu skipulega færðar í fundargerðarbók og að allar samþykktir séu bókaðar nákvæmlega.
Í fundargerðarbók skal rita
a.    númer fundar
b.    fundartíma og fundarstað,
c.    nöfn aðalmanna og varamanna sem sækja fundinn,
d.    dagskrá fundarins
e.    greinargóða lýsingu á hverju fundarefni,
f.    bókanir stjórnarinnar eða einstakra fundarmanna um fundarefni, ef við á
g.    ef fundarmenn víkja af fundi eða koma til fundar eftir að hann hefst.
h.    fundarslit
Viðstaddir fundar¬menn skulu rita nöfn sín í fundargerðarbókina í fundarlok.
Heimilt er að hafa fundargerðir á tölvutæku formi. Sé fundargerð tölvuskráð skal rita gerðarbók númer fundar, fundartíma og fundarstað, nöfn þeirra sem sækja fundinn, dagskrá fundarins, fundarslit og blaðsíðufjöldi fundargerðar. Tölvuskráð fundargerð skal prentuð, hún lögð fyrir fundarmenn í fundarlok eða í upphafi næsta fundar á eftir og hún undirrituð af fundar¬mönnum. Einnig skal formaður og a.m.k. einn fundarmanna setja upphafsstafi sína undir hverja blaðsíðu fundargerðar. Undirritaðar tölvuskráðar fundargerðir skulu reglulega settar í möppu til varanlegrar varðveislu.

4.    gr.
Aðalfundur
Aðalfundur félagsins fer með æðsta vald í félaginu. Aðalfund skal halda eigi síðar 15. mars ár hvert.

5.    gr.
Stjórn félagsins undirbýr og boðar aðalfund. Fundinn skal boða bréflega eða með netpósti með minnst 7 daga fyrirvara. Sé fundurinn boðaður með netpósti, skal hann boðaður bréflega eða auglýstur í fjölmiðlum þeim félögum sem ekkert netfang hafa.
Á aðalfundi skulu mál tekin til umræðu og afgreidd í eftirfarandi röð:
Skýrsla stjórnar,
Ársreikningar félagins, fyrir næstliðið ár lagðir fram
Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla ársreiknings,
Lagabreytingar
Kosning formanns,
Kosning annarra stjórnarmanna
Kosning tveggja skoðunarmanna og eins til vara
Kosning kjörstjórnar til eins árs
Ákvörðun um árgjald félagsins
Önnur mál.
Heimilt er að leita afbrigða og taka mál á dagskrá ef 2/3 viðstaddra atkvæðisbærra fundarmanna samþykkja.

6.    gr.
Félagsfundir
Stjórnin boðar til almennra félagsfunda. Halda skal a.m.k. einn fund að vori og einn að hausti. Félagsfundir skulu haldnir að öðru leyti eftir þörfum eða þegar a.m.k. 10 félagsmenn óska þess skriflega að fundur verði haldinn. Almennir félagsfundir eru lögmætir ef boðað er til þeirra á tryggilegan hátt með minnst þriggja daga fyrirvara.
Fundinn skal boða bréflega eða með netpósti. Sé fundurinn boðaður með netpósti, skal hann boðaður bréflega eða auglýstur í fjölmiðlum þeim félögum sem ekkert netfang hafa.
Félagsfundir fara með æðsta vald félagsins á milli aðalfunda.

7.    gr.
Umræður á aðal- og félagsfundum
Formaður félagsins stýrir að jafnaði fundum en þó er heimilt er að tilnefna annan sem fundarstjóra. Fundarstjóri byrjar fund á því að kanna lögmæti hans.
Ritari stjórnar ritar fundargerðir funda en þó er hægt að velja sérstakan fundarritara til að rita fundargerð.
Í fundargerð skal getið, hvar og hvenær fundur er haldinn og hverjir sitji fundinn. Skrá skal þau mál, sem tekin eru fyrir, aðila máls og meginefni og hvaða  afgreiðslu þau fá.  Sé mál ekki afgreitt samhljóða, skal greina í fundargerð, hvernig atkvæði hafa skipst.

8.    gr.
Eina umræðu þarf til afgreiðslu mála. Við atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum máls nema öðruvísi sé ákveðið í lögum.  Verði atkvæði jöfn með máli og móti, fellur það.
Fundarmaður, sem taka vill til máls, skal óska heimildar fundarstjóra.  Að jafnaði skulu fundarmenn taka til máls í þeirri röð, sem þeir hafa kvatt sér hljóðs.  Víkja má frá þeirri reglu, ef aðili óskar eftir að gera stutta athugasemd eða koma leiðréttingu á framfæri.  Hafi tveir eða fleiri fundarmenn kvatt sér hljóðs samtímis, ákveður fundarstjóri í hvaða röð þeir skuli tala.
Fundarmaður má tala tvisvar við hverja umræðu máls.  Heimilt er þó fundarmanni að taka oftar til máls, til að bera af sér ámæli eða til að gera stutta athugasemd við fundarsköp.  Flutningsmaður tillögu má þó tala oftar en tvisvar við hverja umræðu máls.
Ekki má fundarmaður lesa upp prentað mál við umræður nema með leyfi fundarstjóra.
Undir liðnum önnur mál er heimilt að taka upp hvert það mál sem fundarmenn óska eftir umræðu um, önnur en þau sem þegar hafa hlotið afgreiðslu fundarins.

9.    gr.
Telji fundarstjóri umræður dragast úr hófi fram, getur hann lagt fram dagskrártillögu um, að ræðutími hvers fundarmanns verði takmarkaður, umræðum verði lokið á tilteknum tíma eða umræðum um mál verði lokið þá þegar.  Hver fundarmaður getur og borið fram slíkar tillögur.  Fundarmenn afgreiða tillögur um takmörkun umræðna umræðulaust.

10.    gr.
Tillögur á aðal- og félagsfundi
Engar tillögur um mál á aðal- eða félagsfundi skv. boðaðri dagskrá er hægt að bera upp til atkvæða sem ályktun fundarins nema þær hafi borist stjórn félagsins a.m.k. sólarhring fyrir boðaðan fund og að þeim hafi verið dreift skriflega til fundarmanna. Í öllum málum samkvæmt kafla þessum ræður einfaldur meirihluti atkvæða fundarmanna nema lög Samfylkingarinnar eða fundarsköp þessi mæli fyrir um annað.
Allar tillögur sem bornar eru fram skulu vera skriflegar, undirritaðar af tillöguflytjendum og skriflega studdar af ekki færri en 3 fundarmönnum að tillöguflytjendum meðtöldum.
Tillögur stjórnar til aðal- og félagsfunda skulu vera skriflegar og liggja fyrir með a.m.k. sólahrings fyrirvara.
Ekki er heimilt að taka tillögu til umræðu fyrr en fundarstjóri hefur lýst henni.
Undir liðnum önnur mál er heimilt að taka upp hvert það mál sem fundarmenn óska eftir umræðu um, önnur en þau sem þegar hafa hlotið afgreiðslu fundarins. Ekki er þeim þó undir þessum lið heimilt að bera fram tillögur til ályktunar um annað en að fela stjórn og/eða formanni Samfylkingarinnar á Akureyri að vinna að tilteknum verkefnum eða málefnum milli funda?
Fari svo að  tillaga sé í heild sinni dregin til baka, getur hver sem er úr hópi fundarmanna gert slíka tillögu að sinni í heyranda hljóði á sama fundi og undirritað hana síðan til staðfestingar, enda sé aflað stuðnings úr hópi fundarmanna við hana að nýju sbr. 3. mgr.
Fundarmaður getur borið fram aðaltillögu, breytingartillögu, viðaukatillögu, frávísunartillögu eða frestunartillögu við hvert það mál, sem til umræðu er á fundi.  Slíkar tillögur skulu vera skriflegar, ef fundarstjóri óskar.
Frávísunartillögu skal afgreiða án umræðna.
Komi margar tillögur fram við sama mál, skal fyrst afgreiða frávísunartillögu, þar næst frestunartillögu.  Hafi máli ekki verið frestað eða vísað frá skal fyrst afgreiða breytingartillögur og fyrst þá sem lengst gengur.  Síðan viðaukatillögur og að síðustu aðaltillöguna með áorðnum breytingum og viðaukum.
Heimilt er flutningsmanni tillögu að gera breytingartillögur og viðaukatillögur, sem fram koma við hans tillögu, að sínum og koma þær þá ekki til afgreiðslu sérstaklega.
Komi fram tillögur um fundarstjórn eða meðferð mála sem þessi fundarsköp ná ekki til, þá ræður einfaldur meirihluti

11.    gr.
Afgreiðsla mála á aðal- og félagsfundi
Mál er afgreitt með því að samþykkja það, fella það, vísa því frá fundinum eða vísa því til afgreiðslu nefndar, ráðs eða stjórnar.  Máli, sem aðalfundi eða stjórnarfundi ber að lögum að afgreiða, verður þó eigi vísað til afgreiðslu annarra.
Þá er heimilt að fresta afgreiðslu máls, nema um sé að ræða mál, sem að lögum ber að afgreiða fyrir tiltekinn tíma.

12.    gr.
Atkvæðagreiðsla á aðal- og félagsfundi
Atkvæðagreiðsla fer að jafnaði fram með handauppréttingu.  Fundarstjóri biður þá fundarmenn sem samþykkja mál, að rétta upp hönd.  Að því búnu leitar fundarstjóri mótatkvæða með sama hætti.  Loks skýrir fundarstjóri frá úrslitum atkvæðagreiðslunnar.
Ef mál er svo vaxið, að fundarstjóri telur ástæðulaust að atkvæðagreiðsla fari fram um það, skýrir hann frá því, að hann telji mál samþykkt eða fellt án atkvæðagreiðslu nema athugasemd verði við það gerð.
Heimilt er að afgreiða mál með leynilegri atkvæðagreiðslu, ef fundarmaður óskar.

13.    gr.
Við atkvæðagreiðslu ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum máls nema öðruvísi sé ákveðið í lögum.  Verði atkvæði jöfn með máli og móti, fellur það.

Reglur um fundarsköp voru lagðar fyrir  og samþykktar á aðalfundi Samfylkingarinnar á Akureyri þann 4. mars. 2010.
Breytingar á fundarsköpum samþykktar á aðalfundi 15. mars 2012.

Leave a comment

Your email address will not be published.


*