Áfram Akureyri – áfram lýðræðið


Í síðustu kosningum til sveitarstjórnar hér á Akureyri árið 2014 nýttu aðeins 67,1% kosningarétt sinn en árið 2002 var kjörsóknin 80,6%. Kosningaþátttaka hefur dalað um allt land með sambærilegum hætti. Eftir hrun var mikið rætt um að styrkja lýðræðið, auka íbúasamráð og stjórnmálamenn voru hvattir til aukinna samræðustjórnmála og samvinnu. Á liðnu kjörtímabili var gott samstarf milli meiri- og minnihluta og lögð var mikil áhersla á að ná sameiginlegri niðurstöðu. Þar að auki voru tekin ýmis skref til að bæta íbúasamráð. Sem dæmi um það má nefna gerð nýrrar íþróttastefnu þar sem fjölmargir komu að borðinu og sameiginlegri niðurstöðu var náð. Þessi tegund stjórnsýslu hugnast mér vel, enda tel ég ekki að það sé hlutverk meirihluta bæjarstjórnar að troða „sínum“ málefnum í gegnum kerfið með góðu eða illu. Hlutverk bæjarstjórnar á að vera að þjóna samfélaginu sínu og þar af leiðandi er nauðsynlegt að hlusta á vilja bæjarbúa.  Bæjarstjórn á að leggja áherslu á að ná sameiginlegri niðurstöðu sem gagnast sem flestum til lengri tíma litið. Að sjálfsögðu ber meirihluti bæjarstjórnar þó á endanum ábyrgð og nauðsynlegt getur verið að taka af skarið og taka ákvörðun því ekki má láta mál velkjast um í kerfinu í óhóflegan tíma.

Stöndum vörð um hagmuni Akureyrar

Þrátt fyrir að ýmislegt í stefnuskrám stjórnmálaflokka hér á Akureyri sé keimlíkt, þá eru áherslur þeirra enn ansi ólíkar. Þær endurspegla ólíka forgangsröðun og í flestum tilfellum ólíka grundvallar hugmyndafræði. Hugmyndafræði skiptir nefnilega sköpum. Ef engin hugmyndafræði er höfð að leiðarljósi, þá er kjósendum ekki ljóst út frá hvaða forsendum brugðist er við skyndilegum úrlausnarefnum og hvert er stefnt til lengri tíma litið. Sumir telja það galla að tilheyra stjórnmálaflokki á landsvísu. Ég hef meira að segja heyrt suma ganga svo langt að halda því fram að við sem bjóðum fram krafta okkar hér á Akureyri undir merkjum stjórnmálaflokka á landsvísu höfum einhverra annarra hagsmuna að gæta en að vinna fyrir okkar bæjarfélag. Það er að sjálfsögðu alrangt. Það er hlutverk allra kjörinna fulltrúa á Akureyri að standa fyrst og fremst vörð um hagsmuni bæjarfélagsins. Með því að tilheyra stjórnmálahreyfingu á landsvísu skapast einnig ýmis tækifæri, til dæmis til þess að ræða og skýra hagsmuni bæjarfélagsins. Það er ekki síst mikilvægt þegar kemur að umræðu um málefni landsbyggðanna og sanngjarnrar skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

Með jöfnuð að leiðarljósi

Stefna Samfylkingarinnar grundvallast á jöfnuði. Það endurspeglast til dæmis í áherslu á gjaldfrjáls námsgögn, hærri frístundastyrkjum og að við viljum ekki sjá einkavæðingu í skóla- og heilbrigðiskerfinu. Við teljum að ávallt þurfi að taka ákvarðanir með það að leiðarljósi hvort að þær auki jöfnuð í samfélaginu eða þvert á móti auki enn á stéttaskiptingu, sem fyrir er allt of mikil. Stefna Samfylkingarinnar byggir einnig á umhverfis- og náttúruvernd, jafnrétti kynjanna, heilbrigðri samkeppni og mannréttindum, með áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri til mannsæmandi lífs. Það ætti því aldrei að koma neinum á óvart fyrir hvað við stöndum.

Sama hvað þú gerir – ekki gera ekki neitt

Lýðræðið er í mínum huga hornsteinn samfélagsins, enda felur það í grunninn í sér að fólkið sjálft ræður en ekki fámennur hópur eða jafnvel einstaklingar. Að mínu mati eigum við öll að leggja okkar af mörkum til að þróa samfélagið okkar. Það er kannski ekki alltaf auðvelt, ekki alltaf einfalt og ekki alltaf skemmtilegt, en það  er mikilvægt. Þó að það sé ekki nema fyrir það eitt að þú hafir trú á því að við eigum að búa í lýðræðisríki, þá hvet ég þig kæri kjósandi til þess að kynna þér málin af kostgæfni, mæta á kjörstað þann 26. maí og hvetja vini og ættingja til þess að gera slíkt hið sama.

Látum hjartað ráða för!

Hilda Jana

Látum hjartað ráða för


Þann 26. maí n.k. verður kosið til bæjarstjórnar á Akureyri til næstu fjögurra ára. Samfylkingin á Akureyri er stolt af þátttöku sinni í bæjarstjórn síðustu fjögur árin og sannarlega er hægt að sjá að við höfum haft mikil áhrif á stjórn og stefnumörkun bæjarins. Við viljum halda því áfram.
Ég var afar þakklát kjósendum þegar ég fékk kjörgengi í bæjarstjórn Akureyrar fyrir fjórum árum, algjör nýliði en tilbúin að vinna… Lesa meira...

Að leysa úr læðingi


Eitt mikilvægasta verkefni næsta kjörtímabils er uppbygging vistvæns miðbæjar sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn árið 2014. Sú samþykkt var í samræmi við vilja fjölmenns íbúaþings sem lagði áherslu á: a) að byggja hús fyrir neðan Skipagötu austur-vestur til að mynda skjól fyrir ríkjandi vindáttum, b) að tengja miðbæinn við Pollinn og lífið þar, c) að nýbyggingar yrðu lágreist hús og í samræmi við eldri byggð í miðbænum. Um þessar

Jafnrétti = mannréttindi


Allar manneskjur eiga að búa við jafnrétti og frelsi og jöfn tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegu samfélagi. Ólíkur bakgrunnur fólks og fjölbreytni í mannlífinu gerir samfélagið auðugra og skemmtilegra. Jafnréttismál eru mannréttindamál sem snerta okkur öll og nauðsynlegt er að sofna aldrei á verðinum.

Bregðumst við #MeToo

Hin öfluga #MeToo alheimsbylting sýndi okkur fram á nauðsyn þess að vinna ötullega áfram að jafnrétti kynjanna. Margir sigrar… Lesa meira...

Við viljum vinna fyrir þig


Síðustu tvo mánuði hefur framboðslisti Samfylkingarinnar verið í atvinnuviðtali við kjósendur á Akureyri. Kjósendur velja sér ekki einn aðila heldur velja þeir sér flokk sem þeir telja að geti unnið sem best að hagsmunum Akureyrar; betrumbætt það samfélag sem við búum í og gert bæinn eftirsóknarverðan að búa í.

Listinn er blanda af hæfileikaríku fólki sem er tilbúið að leggja sig allt fram og af heilindum. Þau efstu á… Lesa meira...